Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:48:22 (1486)

2002-11-14 11:48:22# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að mönnum er að sjálfsögðu frjálst að taka sig út úr símaskránni en mönnum er ekki frjálst að taka sig út úr þjóðskránni. Það er ekki hægt að segja sig úr samfélaginu eins og ónefndir menn fengu að reyna sem reyndu það sannarlega fyrr á hinni öldinni.

Ég er algerlega sammála því, það eru líka miklir annmarkar samfara því að færa ekki miðlæga þjóðskrá. Ég er ekki að leggja til að því verði hætt, bara til að fyrirbyggja allan misskilning, ég er ekki að leggja til að menn leggi niður þjóðskrána og þaðan af síður að menn fari í eitthvert bandarískt ástand hvað varðar t.d. kosningarréttarkerfið. Ég held að það sé ekki gott og allra síst viljum við þó fá talningaaðferðir Bandaríkjamanna sem hafa, eins og kunnugt er, reynst alveg hrapallega.

Ég er ekki að taka þetta upp hér, herra forseti, vegna þess að ég telji endilega að við Íslendingar eigum að gera grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi hjá okkur. Það er hins vegar sannanlega þróun í gangi og hún helgast kannski af tveimur þáttum alveg sérstaklega, breyttum viðhorfum til miðlægrar gagnasöfnunar með hliðsjón af persónuvernd og tilkomu hinnar nýju, rafrænu tækni sem setur aðgang að þessum upplýsingum í allt annað samhengi, og möguleikana líka til að dreifa þeim, fjölfalda þær o.s.frv.

Við verðum auðvitað að huga að þessum þáttum hjá okkur í ljósi þróunarinnar, jafnvel þótt okkur þyki ýmislegt í þessu sambandi dálítið framandlegt í okkar litla kunningjaþjóðfélagi þar sem allir þekkja hvort sem er alla. Það virðist næsta hjákátlegt að vera eitthvað að hafa áhyggjur af því hvaða upplýsingar eru á borðinu. Ef menn þekkja viðkomandi ekki beinlínis persónulega er eiginlega ævinlega hægt að hringja í einhvern mann sem þekkir mann og þannig er málið leyst. Við verðum að móta okkur reglur hér sem taka auðvitað mið af alþjóðlegu lagaumhverfi og þróun og þess vegna þurfum við að huga að þessum þáttum.

Fari svo að þjóðskráin endi hjá dómsmrn. tvístrast þessar skrár í ólíkar áttir og þá má velta fyrir sér hversu hagkvæmt það sé.