Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:52:53 (1488)

2002-11-14 11:52:53# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki stórmál finnst mér hvort Hagstofan er sjálfstætt ráðuneyti. Ég vara svona heldur við því að menn flýti sér um of að breyta því, það er aldrei að vita nema það geti aftur átt eftir að koma sér vel að hafa Hagstofuna sem ráðuneyti, en ekki meira um það.

Ég er sammála forsrh. um að það er ekkert að því að hagdeildir eða hagrannsóknardeildir á vegum stærstu launamannasamtaka eflist. Það tel ég vera af hinu góða. Ég minni á gríðarlega mikilvægt hlutverk stærstu heildarsamtaka launamanna aftur og aftur í sambandi við örlagatíma í efnahagsmálum þjóðarinnar, þjóðarsáttarsamninga á sínum tíma og seinni tíma samninga þar sem verkalýðshreyfingin hefur komið að málum. Þar af leiðandi er auðvitað eðlilegt, og hvort sem er vegna hlutverks þeirra, að þeir hafi burði til að leggja sjálfstætt mat á þróun hagkerfisins og hagræna þætti í samfélaginu. Að sjálfsögðu þarf þá að ríkja þar jafnræði þannig að Alþýðusambandið og jafnframt samtök opinberra starfsmanna, háskólamanna, bankamanna o.s.frv. sitji við sama borð í þeim efnum. Allt annað væri auðvitað fráleitt og brot á jafnræðisreglum.

Í sjálfu sér er líka eðlilegt og ekkert nema gott um það að segja að bankar og öflugar fjármálstofnanir ástundi slíkar spár og skoði þessa hluti. Það er hluti af starfsemi þeirra. Ég leyfi mér samt að fullyrða að það kemur ekki í staðinn fyrir gildi þess að til staðar sé í landinu algerlega óháð, sæmilega öflug matsstofnun á þessu sviði sem stjórnvöld, sem Alþingi og aðrir slíkir aðilar, geta þá jafnframt leitað til. Ég hvet til þess og er alveg tilbúinn fyrir mitt leyti að grafa allar stríðsaxir sem tengjast Þjóðhagsstofnun sálugu. Gert er gert og búið er búið. En ég hvet til þess að jafnframt verði hugað að þessum breytingum, hvort hagdeild eða lítil sjálfstæð hagstofnun, t.d. í skjóli Alþingis, gæti ekki þjónað vel í þessu kerfi.