Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:55:19 (1489)

2002-11-14 11:55:19# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:55]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þau frv. sem hæstv. forsrh. mælir fyrir á þessum morgni láta lítið yfir sér en þau snerta svo sannarlega mikilvæga hluti stjórnsýslunnar og tengjast mjög stórum verkefnum sem oft hefur verið kallað eftir og sem hafa mikla þýðingu um hvernig stjórnvaldið mun virka í framtíðinni. Þess vegna finnst mér miður að hér fari ekki fram mjög ítarleg og víðtæk umræða um þau mál sem tengjast þeim litlu saklausu frv. sem hér eru borin fram.

Ég vil fyrst taka fram að mér finnst mikilvægt að verkaskipting ráðuneytanna sé skoðuð. Reyndar hef ég átt liggjandi inni í einhverjar vikur fyrirspurn til hæstv. forsrh. um áform um verkaskiptingu ráðuneytanna og geri ráð fyrir að innan tíðar getum við tekið þá umræðu okkar í milli.

Mér finnst fremur óheppilegt að verið sé að taka á verkaskiptingu í litlum skrefum, litlum bitum væri hægt að segja. Það hefði ekki verið óeðlilegt að á sínum tíma, þegar mjög umdeild ákvörðun var tekin um að leggja niður Þjóðhagsstofnun, hefði verið farið ítarlega yfir það hvernig ætti að skipa þeim verkefnum sem voru á hennar hendi og þeim verkefnum sem væru á hendi þeirrar stofnunar sem tæki við stórum þáttum frá Þjóðhagsstofnun, svo sem Hagstofunnar. Það var ekki gert og ég vil benda á að ég tel framsetningu og stefnumörkun ábótavant þegar lögð eru fram frv. með þessum hætti og tekin ákvörðun um aðskilda þætti án þess að fyrir liggi hvað eigi að gerast í viðkomandi stofnunum.

Það kemur fram hér að ákvörðunin um að flytja skráninguna frá Hagstofunni sé framhald þeirra breytinga á verkaskiptingunni sem urðu á miðju ári 2002 með niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar, flutningi hagskýrsluverkefna til Hagstofunnar og þjóðhagsspárverkefna til fjmrn. og Seðlabanka.

Mér finnst það ekki hafa komið skýrt fram hvert hæstv. forsrh. ætlar að flytja þjóðskrána. Ég væri mjög andvíg því ef það kæmist til tals að draga úr mikilvægi hennar. Ég tel það hluta af lýðræðisuppbyggingunni á Norðurlöndunum að vera með þjóðskrá og væri fráleitt að breyta því. Við eigum auðvitað að standa vörð um það með hvaða hætti hún er notuð, aðgang að henni og upplýsingagjöf.

Ég lýsi því líka yfir hér að ég treysti verkalýðshreyfingunni afskaplega vel til að sinna ákveðnum þáttum efnahagsmálanna, úttektum og efnahagsspám. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin hafi fengið aukið tækifæri til að vinna að þeim málum. Það er vegna þess að ég tel mikilvægt að óskyldir aðilar fjalli um þau mál, að samhliða því að ríkisstjórnin er með eigin efnahagsúttektir og efnahagsspár, hvort heldur áfram hjá Þjóðhagsstofnun eða, eins og þessi ríkisstjórn ákvað, hjá fjmrn. og Seðlabanka, sé annar aðili sem horfir á málið með öðruvísi hagsmuni í huga, geti farið yfir það frá öðrum sjónarhóli og sett fram bæði spurningar og áleitna gagnrýni sem er mjög mikilvæg ef þessir hlutir eiga að vera í góðu lagi.

Mér finnst mjög athyglisvert og að mörgu leyti ámælisvert þar sem ríkisstjórnin setti það fram í samstarfssamningi sínum að hún mundi fara yfir verkaskiptingu ráðuneyta sé komið að lokum þessa kjörtímabils án þess að sett hafi verið fram nein skýr stefnumörkun um hvernig ríkisstjórnin hafi séð það fyrir. Í raun og veru hef ég efasemdir um að mjög víðtækar breytingar verði gerðar héðan af meðan ekki er ljóst hvort þessi ríkisstjórn fær áframhaldandi umboð í næstu kosningum. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað sjá þessi mál skoðuð, án þess að fara nánar í það, og ég hefði viljað sjá hvernig farið væri með hin ýmsu félagslegu verkefni sem mörg hver eiga alls ekki heima þar sem þeim er fyrir komið í stjórnsýslunni.

Aðeins að skráningunni. Mér finnst mjög gott skref hafa verið stigið 1997 þegar farið var að sameina skráningar, og eins 1999. Það er mikilvægt að til sé gagnasafn og þá með þeim formerkjum sem ég hef þegar nefnt.

Ég undirstrika hvað það virkar ankannalegt fyrir okkur sem fjöllum um þessi mál að verið sé að taka ákvarðanir með þeim hætti sem hér er gert, að taka skrefin út og suður og sitt á hvað. Hér er í raun verið að fjalla um verkaskiptingu tveggja ráðuneyta. Við vitum ekkert hvað verið er að hugsa um önnur ráðuneyti. Það er verið að samræma löggjöf þannig að í fyrirtækjaskránni, ákvæðum laga um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sé um samræmda löggjöf að ræða og ég tek undir það. Síðan er verið að flytja verkefni þannig að þau heyri undir fjmrh. Ég hef ekki skoðun á því núna hvort ég telji að þannig eigi það að vera. Ég velti fyrir mér hvernig embætti fjmrn. er farið að virka og ég tel mjög mikilvægt að skoða þessi mál vel í nefnd.

Þriðja atriðið sem frv. kveður á um er eðlilegt, um reglugerðarheimildirnar. Ég mundi gjarnan vilja heyra hvað hæstv. forsrh. segir um það hvernig hann ætlar að koma þjóðskránni fyrir, og hvar. Að öðru leyti get ég tekið undir að góðir hlutir eru að gerast með fyrirtækjaskrána eins og hún hefur verið unnin hingað til, og að þetta er hvað hana varðar gott skref.

Herra forseti. Þetta eru þær athugasemdir sem ég hafði við 1. umr. þessa máls. Ég geri mér alveg grein fyrir því að í raun er það hluti af mjög stóru máli. Ég hef bara farið yfir hvað mér finnst um það og ég hefði viljað að við töluðum um stefnumörkun og verkefnatilfærslu ráðuneytanna í miklu víðtækari mæli en hér er um að ræða.