Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:07:46 (1492)

2002-11-14 12:07:46# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:07]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé til bóta að halda utan um skrár á vegum hins opinbera sem mest á einum stað og hafa um það samræmdar reglur.

Ég ætla nú ekki að fara að ræða þetta mál almennt. En það er eitt sem vekur athygli mína í þessu frv. um fyrirtækjaskrá. Í 8. gr. þess stendur, með leyfi forseta:

,,Ríkisskattstjóri skal veita opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá.

Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðgang að fyrirtækjaskrá, veitingu upplýsinga úr henni svo og um gjaldtöku fyrir upplýsingar úr skránni, svo sem fyrir útgáfu vottorða, staðfestinga og önnur afnot af upplýsingum skrárinnar.``

Þarna er það algjörlega skýrt að grunngögnin í skránni verði opin almenningi. Þetta er mikilvægt. Í athugasemdum með frv. stendur svo, með leyfi forseta:

,,Með því að færa fyrirtækjaskráninguna, þ.e. grunnskráningu allra upplýsinga sem máli skipta um auðkenni og einkenni aðila til ríkisskattstjóra, er verið að sameina á einn stað skráningu allra upplýsinga um fyrirtæki sem ætlaðar eru til opinberra nota og jafnframt birtar almenningi.``

Ég nefni þetta vegna þess að til eru skrár á vegum hins opinbera sem eru ekki opnar almenningi en ég tel að séu sambærilegar við það sem hér er verið að tala um. Þá á ég við skipaskrá Siglingastofnunar ríkisins sem er ekki opin almenningi. Ef menn ætla að fá aðgang að henni þurfa þeir að kaupa þann aðgang fyrir 14 þús. kr. Mér finnst ekki eðlilegt að svona sé að málum staðið þar.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji að sá háttur sem hafður er á hjá Siglingastofnun ríkisins samrýmist þeirri afstöðu sem kemur fram í því að setja mál fram með þessum hætti í frv. Útgerðir eru ekkert annað en fyrirtæki. Auðvitað er hægt að nálgast upplýsingar um útgerðir skipanna í gegnum fyrirtækjaskrá og annað slíkt, en það flækir málið að geta ekki notað skipaskrána eða haft aðgang að henni öðruvísi en að fara einhverjar krókaleiðir til þess. Mér finnst það heldur snautlegt að geta ekki nálgast upplýsingar úr skipaskrá hjá sjálfri Siglingastofnun ríkisins öðruvísi en að borga fyrir það 14 þús. kr.