Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:12:04 (1494)

2002-11-14 12:12:04# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:12]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði áðan og vil endurtaka það: Ég les 8. gr. með þeim gleraugum að hér séu almennar upplýsingar til reiðu án endurgjalds því þar stendur, með leyfi forseta:

,,Ríkisskattstjóri skal veita opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá.

Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðgang að fyrirtækjaskrá, veitingu upplýsinga úr henni svo og um gjaldtöku fyrir upplýsingar úr skránni,`` --- og síðan er upptalning: --- ,,svo sem fyrir útgáfu vottorða, staðfestinga og önnur afnot af upplýsingum skrárinnar.``

Mér fannst að ég væri að lesa þarna það út að almennur aðgangur að skránni væri frjáls almenningi. Vel kann að vera að meiningin sé önnur. En þá er ég ósammála því. Mér finnst að opinberar skrár af þessu tagi eigi að vera opnar almenningi. Ef það er niðurstaðan að fólk sem þarf kannski stöku sinnum á slíkum skrám að halda þurfi að borga 14 þús. kr. á ári, eins og t.d. Siglingastofnun krefst af þeim sem fá að fara þar inn á skrána, þá er náttúrlega ekki verið að veita almennan aðgang að þessum skrám.