Birting laga og stjórnvaldaerinda

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:18:06 (1498)

2002-11-14 12:18:06# 128. lþ. 30.4 fundur 352. mál: #A birting laga og stjórnvaldaerinda# (Lögbirtingablaðið) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:18]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er auðvitað ágæt ábending hjá hv. þm. Við þurfum að skoða hagsmuni allra, líka þeirra sem eru á landsbyggðinni, varðandi rekstur á ýmsum opinberum stofnunum. En ég held þó að það mundi ekki þykja hagkvæmt í þessu sambandi. Þessi starfsemi hefur verið rekin með útgáfu Stjórnartíðinda og ég held að mér sé óhætt að segja að þessi möguleiki hafi ekki verið skoðaður.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það eru sjálfsagt fá ráðuneyti sem eru með jafnmargar undirstofnanir úti um allt land og einmitt dóms- og kirkjumrn. og mikinn fjölda starfsmanna sem við erum auðvitað í góðu sambandi við. Ég hygg því að við höfum nokkra sérstöðu í ráðuneytinu hvað það varðar.

Ýmsir þættir hafa verið skoðaðir, t.d. að færa einhverja starfsemi frekar út á land. Ég get nefnt það sérstaklega að við höfum verið að velta því fyrir okkur í dómsmrn. að skoða t.d. fyrirkomulagið á innheimtu sekta sem er hjá ríkislögreglustjóraembættinu í dag, hvort við munum flytja það út á land. Og fleiri slík atriði eru til skoðunar.

Þar að auki hefur af hálfu ríkislögreglustjóraembættisins verið stuðlað að því að flytja til lögreglumenn til annarra embætta. Ég tel það vera í góðu lagi og gagnlegt.