Textun íslensks sjónvarpsefnis

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:51:30 (1505)

2002-11-14 12:51:30# 128. lþ. 30.10 fundur 339. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., Flm. PBj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:51]

Flm. (Pétur Bjarnason):

Herra forseti. Fyrir skömmu var haldin ráðstefna um textun á íslensku sjónvarpsefni og íslenskum kvikmyndum undir nafninu textaþing. Ráðstefnan var haldin að frumkvæði nokkurra samtaka m.a. heyrnarlausra, heyrnardaufra, nýbúa og samtaka aldraðra en þessir hópar þurfa mjög á textun efnis í sjónvarpi að halda. Þar komu fram upplýsingar um hversu skammt við erum á veg komin í þessum efnum og einnig um hlutfall textunar hjá ýmsum nágrannaþjóðum okkar.

Margir muna eftir landsþekktu viðtali við Gísla Gíslason, einsetumann í Selárdal, fyrir mörgum árum. Vegna þess hve hann var óskýrmæltur var brugðið á það ráð að texta viðtalið. Þeir sem eru með óskerta heyrn geta e.t.v. betur sett sig í spor þeirra sem erfitt eiga með að greina á milli hljóða og skilja talað mál með því að rifja þetta upp því að þannig er aðstaða tugþúsunda fólks hér á landi sem reynir að fylgjast með sjónvarpi en mikið af efninu fer fyrir ofan garð og neðan vegna vöntunar á texta með talinu. Nánar tiltekið er talið að um 30 þús. manns hér á landi geti þannig ekki fylgst á fullnægjandi hátt með fréttum og öðru innlendu dagskrárefni í sjónvarpi. Það er svipað hlutfall og hjá öðrum þjóðum næst okkur.

Einnig má minna á hvílík bylting það varð á sínum tíma þegar textun hófst á erlendu efni í sjónvarpi og kvikmyndum fyrir allmörgum árum. Nú þykir þetta sjálfsagt og óhjákvæmilegt en opnaði á þeim tíma nýja sýn fyrir þá sem ekki bjuggu yfir mikilli tungumálakunnáttu. Svipuð bylting yrði það fyrir stóran hluta landsmanna ef textun yrði almenn á íslensku sjónvarpsefni og kvikmyndum.

Á árinu 2001 var settur texti við alls 625 mínútur af íslensku sjónvarpsefni sem nálgast mátti með textavarpi. Ekki er ljóst hversu hátt hlutfall það er af öllu efni en að líkindum afskaplega lágt. Sama ár var 2,8 millj. kr. varið til textunar og táknmálsfrétta en ekki liggur fyrir sundurliðun á þeim kostnaði.

Áætlað er að 3,3 millj. kr. fari í þessa liði árið 2002. Það lætur nærri að vera um 1 prómill af útgjöldum ríkissjónvarpsins. Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að hægt miðar í áttina og samþykkt þáltill. sem getið er um í þessari tillögu hefur ekki haft nein áhrif. Mér láðist að geta þess í upphafi máls míns að með þeirri tillögu sem ég ber fram hér er verið að fylgja eftir tillögu sem samþykkt var vorið 2001, þáltill. um að hraða textun, og þessi tillaga er flutt til þess að hnykkja á því að þarna liggur fyrir samþykkt sem þarf að fylgja eftir. Þess vegna er enn á ný vakin athygli á þessu.

Þegar litið er til textavarpsins aftur á móti af því að það var nefnt hér áðan, þá vekur það furðu margra hversu ófullkomið það er enn þá hvað varðar íslenska stafi. Það þarf oft nokkra hugkvæmni til þess að lesa réttan texta út úr híeróglýfum þeim sem birtast á skjánum, sérstaklega þegar maður er óvanur því. Það venst þó. Þess má geta að þar sem textun er komin vel á veg er t.d. hafður litarmunur á texta eftir því hvaða persóna á skjánum talar því að ekki er sá alltaf í mynd sem talar hverju sinni. Þá er myndmál eins konar notað til þess að tákna ýmis hljóð sem heyrast í myndinni, hvort sem það kann að vera byssuhvellur, skriðuföll, sjávarhljóð eða eitthvað annað.

Ef litið er til Bretlands og BBC, þá kom í ljós á fyrrnefndu textaþingi að um 78% af öllu efni BBC er textað. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir gerir ágæta grein fyrir þessu í Morgunblaðsgrein 12. þessa mánaðar. Meðal textaðs efnis í BBC eru íþróttafréttir, fréttir, þingmál og bíómyndir. Þetta hefur þróast í það horf á tiltölulega fáum árum því að 1983 voru einungis fáeinar klukkustundir á viku textaðar. Á 9. áratugnum voru samþykkt lög sem kröfðust þess að 50% efnis yrði textað og gefin átta ár til að framkvæma verkið. Það gekk svo vel að árið 1996 var markið sett á 80% efnis. BBC hefur sjálft sett sér það markmið að allt efni þess verði textað árið 2008. Í Bretlandi er talið að einn af hverjum sjö sé heyrnarskertur en einnig er vitað að stór hópur fólks notar textann til þess að bæta enskukunnáttu sína. Nú er verið að vinna með nýja tækni sem breytir tali samstundis í texta. Sú vinna gengur því miður hægt og það virðist enn langt í land með að sú tækni nái fullkomnun en ef það yrði að veruleika gæti hún létt mjög gerð textunar eða framkvæmd hennar.

Í Bandaríkjunum er ástandið orðið gott varðandi textun sjónvarpsefnis. Til dæmis er allt efni í íþróttum textað, flestallar auglýsingar og þar hvílir sú lagaskylda á sjónvarpsstöðvum að texta allt efni sitt ekki síðar en í janúar 2006.

Í Noregi eru um 600 þús. manns heyrnarskertir. Þar af eru um 200 þúsund manns sem nota heyrnartæki. Opinberar tölur frá NRK gefa upp að um 60% efnis frá þeim sé textað en þar er talið með erlent efni sem textað er eins og gerist hérlendis og því er talið nær lagi að nálægt 25% af norsku efni sé textað sem er þó umtalsvert meira en hér. Í Noregi er eins og í Bretlandi verið að þróa beina túlkun á tali yfir í ritmál. Mér er sagt að þessi tækni sé svolítið mismunandi eftir því hvaða tungumál er notað. Það sé mismunandi auðvelt að koma tungumáli yfir á ritmál og fer að miklu leyti eftir beygingarreglum og þeim breytingum sem orð málsins taka í samtölum og þar af leiðir að íslenskan er frekar erfið.

Í Bretlandi er það löggjöfin sem stýrir textun efnis hjá BBC. Annars staðar hefur ekki verið sett löggjöf en þrýstingur frá almenningi og stjórnvöldum hefur stýrt þróuninni. Talið er að Hollendingar hafi náð einna lengst án lagasetningar en þar er um 70% efnis textað. Ekki fer á milli mála að Ísland hefur mjög dregist aftur úr í þessum efnum og því brýnt að hefjast handa við þetta réttlætismál sem nýtist stórum hluta þjóðarinnar og eins og fram hefur komið vaxandi fjölda því að hópur aldraðra fer sístækkandi og þeirra á meðal eru mjög margir sem mundu hafa not af textun efnis í sjónvarpi.

Herra forseti. Ég mæli með að þessari þáltill. verði vísað til hv. menntmn. að lokinni umræðu.