Textun íslensks sjónvarpsefnis

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 13:04:35 (1507)

2002-11-14 13:04:35# 128. lþ. 30.10 fundur 339. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., Flm. PBj
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[13:04]

Flm. (Pétur Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir jákvæðar undirtektir við þetta mál. Ég get mér þess til að ástæða þess að ekki skuli fleiri hv. þm. taka hér til máls sé að skammt er síðan forveri þessarar þáltill. var ræddur í þinginu. Hér er því ekki um áhugaleysi þingmanna að ræða heldur er búið að ræða þetta og reynar ákveða þetta. Ég er fyrst og fremst að ýta á eftir framkvæmdinni. Ég tel mjög brýnt að menn hafist að sem fyrst þó ég sjái reyndar ekki að svo geti orðið með þeim fjármunum sem nú er varið til þessa málaflokks.

Eins og hv. þm. gat um kemur þetta við mjög marga hópa í þjóðfélaginu. Þetta snertir málefni barna, nýbúa, aldraðra og fjöldamargra annarra. Ég sé ekki ástæðu til að ætla að hlutfallið hjá okkur sé lægra en hjá Bretum. Þar er fullyrt að einn af hverjum sjö þurfi á þessu að halda. Þá sjáum við að mjög stór hópur Íslendinga þarf á þessari þjónustu að halda og reiðir sig á að unnið verði að því að hún komist á.

Varðandi það að breyta tali í texta þá viðurkenni ég að ég er ekki mjög vel heima í þeirri tækni. Þegar ég var að vinna að þessari þáltill. taldi ég þetta mál vel á veg komið en mér var síðan sagt að það væru fleiri ljón í veginum en menn hefðu búist við í upphafi. Það er a.m.k. unnið að þessu og það yrði auðvitað mikil bylting ef það kæmist á.

Ég vitnaði áðan í Morgunblaðsgrein. Önnur grein var í Morgunblaðinu í gær þar sem verið er að fjalla um textavarp BBC og textun sem þar fer fram. Í þeirri grein kemur fram að um 90 manns vinni við að texta beinar útsendingar og annað efni sem sent er út þaðan. Miðað er við að hægt sé að koma til skila um 200 orðum á mínútu. Þegar svona er unnið má búast við því að einhverjar skyssur, einhverjar misfærslur verði til. Það er reynt að leiðrétta þær eftir föngum en þeim fer fækkandi eftir því sem betri reynsla fæst af þeirri aðferð. En ég þakka jákvæðar undirtektir við málið.