Sala Búnaðarbankans

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:04:58 (1512)

2002-11-18 15:04:58# 128. lþ. 31.1 fundur 242#B sala Búnaðarbankans# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsrh. sem yfirmanns einkavæðingarnefndar út af ákvörðun um sölu Búnaðarbankans til S-hópsins svonefnda sem kjölfestufjárfestis.

Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs merkir orðið kjölfesta eitthvað þungt í botni skips til að gera það stöðugra á siglingu eða þyngra í kjölinn, eitthvað sem er öruggt eða traust. Nú er það svo, herra forseti, að fram hefur komið að S-hópurinn svonefndi virðist ekki eiga neina peningana og ekki er ljóst og liggur ekki fyrir hvenær hann fer að borga eitthvað, það verður a.m.k. ekki strax, það verður ekki við undirskrift samnings. Hann fær bara afhenta lyklana. Í öðru lagi liggur ekki fyrir hvort greitt verður fyrir bankann í íslenskum gjaldmiðli eða erlendri mynt. Í þriðja lagi liggur ekki fyrir hve stóran hlut hver og einn í þessum hópi mun kaupa. Í fjórða lagi hvílir leynd yfir því hver hinn væntanlegi erlendi samstarfsaðili S-hópsins um kaupin er. Og í fimmta lagi liggur það fyrir og þykir fréttnæmt að á sama tíma og hópurinn er að kaupa Búnaðarbankann geisar heiftúðug valdabarátta bak við tjöldin innan hópsins. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. í ljósi þessa: Telur hæstv. forsrh. að hér sé fundin sú kjölfesta í eignarhaldi bankans sem verið er að leita eftir og samanber skilgreiningu Orðabókar Menningarsjóðs á því hvað kjölfesta er?