Framkvæmd laga um þjóðlendur

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:17:52 (1523)

2002-11-18 15:17:52# 128. lþ. 31.1 fundur 244#B framkvæmd laga um þjóðlendur# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Fyrir ekki löngu samþykkti Alþingi lög um þjóðlendur. Ekki þarf á þessum vettvangi að rifja upp tilefni þeirrar lagasetningar. Hitt var alveg ljóst af umræðum héðan úr þessum ræðustóli að vilji þingsins var sá að virða að fullu þinglýstar eignir landeigenda. Á því leikur ekki minnsti vafi.

Við framkvæmd þessara laga hafa komið upp ýmis álitamál svo sem búast mátti við. Árnessýsla varð fyrst fyrir valinu sem nokkurs konar tilraunavettvangur. Kröfugerð fjmrn. var mótmælt svo sem búast mátti við en málið að lokum sent til úrskurðarnefndar lögum samkvæmt. Nokkur spenna ríkti meðan úrskurðar var beðið en þegar hann svo birtist virtist orðin sátt um málið, enda byggir úrskurðurinn að mestu á því að virða þinglýstar eigur manna rétt eins og fram kom í umræðum á Alþingi.

Þá bregður hins vegar svo við að fjmrn. ákveður að áfrýja málinu til dómstóla. Kom það satt að segja nokkuð á óvart. Ég hef heyrt skýringar hæstv. fjmrh. á ástæðum þess að embættismenn hans töldu nauðsynlegt að áfrýja. Eru þær fyrst og fremst af lagalegum toga. Hæstv. fjmrh. er með öðrum orðum nokkur vandi á höndum. Því spyr ég hæstv. fjmrh. hvort hann telji skorta á ákvæði í texta þjóðlendulaga þess efnis að vilji þingsins og úrskurðarnefndar verði framkvæmdur og ef svo er hvort Alþingi þurfi að breyta texta laganna á þann veg að vilji þingsins megi betur koma fram í framkvæmd og draga þannig úr þeirri spennu sem óneitanlega er orðin í þessu stóra máli.