Framkvæmd laga um þjóðlendur

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:19:43 (1524)

2002-11-18 15:19:43# 128. lþ. 31.1 fundur 244#B framkvæmd laga um þjóðlendur# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel ekki skorta neitt á ákvæði laganna um þessi málefni. Þessi mál eru nákvæmlega í þeim farvegi sem lögin gera ráð fyrir. Það er sérstaklega getið um það í lögunum að allir aðilar sem að þessum málum koma geti skotið þeim til dómstóla ef þeir telja efni standa til þess og það hafa tvö eða þrjú sveitarfélög þegar ákveðið að gera og það hefur ríkisvaldið einnig ákveðið að gera að því er varðar eitt mál, einn úrskurð af þeim sjö sem upp hafa verið kveðnir í Árnessýslu. Það er lögunum samkvæmt.

Uppi eru í þessu efni ýmis þýðingarmikil lögfræðileg álitaefni sem m.a. varða gildi þinglýstra heimilda inn til hálendisins þar sem ekki er um að ræða staðfestingu hinum megin frá, ef svo mætti segja, auk annarra álitaefna sem hafa verið til umræðu í landinu áratugum saman eins og við vitum. Með þjóðlendulögunum er gerð tilraun til þess að leysa þessi mál í eitt skipti fyrir öll og til allrar framtíðar. Þess vegna verða menn að vanda sig mjög við fyrstu málin til þess að fá þar úrskurði sem geta staðið framvegis og það er markmiðið með því dómsmáli sem nú er hafið. Það er hafið sem prófmál til þess að fá fordæmisgefandi úrskurði frá æðsta dómstóli landsins um þau álitamál sem þarna er um að tefla. Enginn getur veitt slíkan úrskurð annar en Hæstiréttur Íslands og úrskurðir óbyggðanefndarinnar hafa ekki fordæmi gegnvart dómstólum. Við verðum að gæta samræmis um land allt í þessum efnum. Fyrstu úrskurðirnar verða að vera þannig að þeir hafi fordæmisgildi um allt land þannig að á einu svæði gildi ekki eitt og á öðru annað og að seinna komi hugsanlega hæstaréttardómar sem gætu gengið gegn núverandi úrskurði óbyggðanefndar. Þetta er staðan í málinu. Þess vegna var að mínum dómi óhjákvæmilegt að þetta mál færi fyrir dómstóla í þeim búningi sem það nú er.