Viðbótarlán Íbúðalánasjóðs

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:24:33 (1527)

2002-11-18 15:24:33# 128. lþ. 31.1 fundur 245#B viðbótarlán Íbúðalánasjóðs# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í fjárlögum og fjáraukalögum er Íbúðalánasjóði veitt lánsfjárheimild fyrir svokölluðum viðbótarlánum. Þetta er heimild til að veita lán til þeirra sem hafa lágar tekjur að hlutfalli 20--25% eftir atvikum af íbúðarverðinu. Viðbótarlánin eru veitt í umboði sveitarfélaganna sem síðan úthluta þessum lánum.

Nú berast þær fréttir að lánsfjárheimildir vegna viðbótarlána séu uppurnar, bæði það sem ákveðið var samkvæmt fjárlögum, um 3,8 milljarðar kr., og um 1,3 milljarðar samkvæmt fjáraukalögum. Af þessum samtals um 5 milljörðum átti Reykjavíkurborg eða Reykvíkingar að fá rúmlega 2 milljarða. Nokkuð skortir á að þetta svari eftirspurn og spurning mín til hæstv. fjmrh. er hvort ríkisstjórnin hafi tekið um það ákvörðun að hækka lánsfjárheimildir í fjáraukalögum þannig að hægt sé að veita lán út þetta ár í samræmi við þá brýnu þörf sem er á þessu.