Heimild til kaupa á Geysissvæðinu

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:30:53 (1534)

2002-11-18 15:30:53# 128. lþ. 31.1 fundur 246#B heimild til kaupa á Geysissvæðinu# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Þetta mál er að sjálfsögðu þess eðlis að það þarf tvo til að ljúka því, þ.e. kaupandann og seljandann.

Geysir sjálfur og hans nánasta umhverfi er það sem kalla mætti frímerki á korti sem ríkið á nú þegar. Ríkið á ákveðið svæði í kringum hverinn en lengi hefur staðið til að reyna að eignast allt hverasvæðið. Viðræður hafa verið í gangi við núverandi eigendur sem einnig hafa verið áhugasamir um að koma þessu í kring. Hins vegar er það rétt sem þingmaðurinn sagði, málið er flókið vegna þess að það varðar líka nýtingu vatnsréttinda á svæðinu, þ.e. hvort hægt sé að bæta íbúum á þessu svæði upp, hugsanlega með nýrri vatnslögn, það að afsala sér afnotum af vatni á hverasvæðinu sjálfu. Menn á vegum ráðuneytisins og eigenda hafa fjallað um þetta. Það er ekki enn þá komin niðurstaða en ég er auðvitað vongóður um að okkur takist að leysa þetta mál eins og önnur þar sem um er að ræða kaup og sölu á eignum. Auðvitað væri æskilegast að það gæti gerst sem fyrst þó að við getum ekkert fullyrt um að það sé að gerast alveg á næstunni.