Framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:33:10 (1536)

2002-11-18 15:33:10# 128. lþ. 31.1 fundur 247#B framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Upp á síðkastið hafa borist af því fréttir að erlendir verktakar hafi verið að draga til baka yfirlýsingar sínar um að vilja taka þátt í útboðum sem Landsvirkjun hefur birt vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Er þar um að ræða borun jarðganga og stíflugerð.

Þann 5. nóvember bárust fréttir um að sænski byggingarrisinn Skanska AB hefði hætt við þátttöku í útboði vegna virkjunarframkvæmdanna. Tíu dögum síðar, 15. þessa mánaðar, bárust fréttir um að norska fyrirtækið Veidekke ASA hefði líka tilkynnt að það mundi ekki taka þátt í útboði Landsvirkjunar um stíflu- og gangagerð við Kárahnjúka.

Nú er það svo að í fjölmiðlum hefur tveimur ástæðum verið hreyft fyrir þessari hegðan þessara stóru erlendu fyrirtækja. Í fyrsta lagi hefur verið nefnt til sögunnar að umhverfisáhrif gætu verið þarna að verki og orsakað það að fyrirtækin vildu ekki taka þátt í útboðunum. Sömuleiðis hafa borist fregnir af því að verkhönnunarþættir séu ekki klárir og þar af leiðandi séu kostnaðarliðir ófyrirséðir. Það kann því að vera að þarna séu einhverjir verkfræðilegir óvissuþættir til staðar.

Nú leikur mér forvitni á að vita, herra forseti, hvort hæstv. iðnrh. geti upplýst þingið um það hvað hér sé á ferðinni, hvort hún geti upplýst okkur um ástæður þess að erlendir verktakar, þetta margir og þetta stórir og sterkir, eru að draga sig út úr þátttöku í þessum útboðum.