Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:51:12 (1540)

2002-11-18 15:51:12# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir sem er eitt af þeim frumvörpum sem forsrh., menntmrh. og iðnrh. flytja í tilefni af nýskipan vísinda- og tæknimála á vegum ríkisstjórnarinnar. Eins og hér hefur komið fram voru frv. lögð fram á síðasta þingi en voru ekki afgreidd þá.

Við framlagningu þessa frv., um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, hafa verið gerðar nokkrar breytingar frá síðasta þingi sem víkja þó ekki frá þeirri meginstefnu sem frv. þremur er ætlað að fylgja. Ég mun hér á eftir gera sérstaka grein fyrir þessum breytingum en fyrst mun ég rifja upp helstu nýmæli í frv.

Í frv. forsætisráðherra um Vísinda- og tækniráð er gert ráð fyrir að ráðið fjalli bæði um vísindarannsóknir og tækniþróun. Vísindarannsóknir heyri undir menntmrh. en tækniþróun og nýsköpun undir iðnrh. Frv. þetta fjallar um opinberan stuðning við vísindarannsóknir í samræmi við framangreinda skiptingu og er háð því að frv. til laga um Vísinda- og tækniráð verði að lögum. Markmið frv. er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir í landinu.

Helstu nýmæli frumvarpsins eru:

Í fyrsta lagi er lagt til að nýr sjóður, Rannsóknasjóður, taki við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs samkvæmt núgildandi lögum um Rannsóknarráð Íslands, nr. 61/1994. Stjórn Rannsóknasjóðs tekur við hlutverki því sem úthlutunarnefndir höfðu áður. Þá er lagt til að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs samkvæmt sömu lögum og fer stjórn Rannsóknasjóðs einnig með stjórn hans. Hins vegar er lagt til að Rannsóknarnámssjóður starfi áfram undir sérstakri stjórn.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir heyri áfram undir menntamálaráðuneytið. Rannsóknasjóður mun gegna lykilhlutverki varðandi styrkveitingar til rannsókna. Sjóðurinn mun styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir samkvæmt skýrum kröfum um vísindalegan framgang, birtingu og skil á vísindalegum niðurstöðum. Þessi tilhögun auðveldar samanburð umsókna þrátt fyrir mismunandi uppruna þeirra. Áhersla verður lögð á að rannsóknir séu styrktar eftir gæðum sem metin verða samkvæmt faglegum kröfum á viðkomandi sviði. Með þessu er verið að tryggja að sambærileg viðmið gildi við mat á umsóknum um styrki, hvort sem um er að ræða grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir.

Gert er ráð fyrir að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs. Lagt er til að hlutverk Tækjasjóðs verði að veita háskólum og öðrum rannsóknastofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði vegna rannsókna. Það er nýlunda í þessu frumvarpi að sömu aðilar sitji í stjórnum Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs og úthluti styrkjum á þann hátt sem hér er lagt til. Þannig er leitast við að samþætta úthlutanir þeirra.

Í fjórða lagi er það markmið endurskoðunar á lögum nr. 61/1994 að draga skýrari mörk á milli stefnumótunar á sviði vísinda og tækni og þjónustu vegna þeirra. Í samræmi við þetta er lagt til í frumvarpinu að stefnumótun fari fram í Vísinda- og tækniráði og undirnefndum þess en úthlutun styrkja verði á vegum stjórna viðkomandi sjóða. Rannsóknamiðstöð Íslands sem leysir núverandi skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands af hólmi mun þó veita báðum aðilum nauðsynlega þjónustu. Þannig mun miðstöðin veita Vísinda- og tækniráði faglega aðstoð við undirbúning stefnumótunar í samráði við viðkomandi ráðuneyti. Hún mun einnig annast umsýslu sjóða og veita stjórnum þeirra og fagráðum nauðsynlega þjónustu. Um er að ræða Rannsóknasjóð, Tækjasjóð, Rannsóknarnámssjóð og aðra sjóði sem menntamálaráðherra felur stjórn Rannsóknasjóðs að fara með. Rannsóknamiðstöðin mun einnig annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir iðnaðarráðherra.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því að Rannsóknamiðstöð Íslands miðli upplýsingum vegna þátttöku Íslands í rannsóknasamstarfi á Evrópska efnahagssvæðinu, Norðurlandasamstarfi og öðru alþjóðlegu samstarfi. Hún safnar hagtölum um rannsóknir og þróun, sér um úttektir á sviði rannsóknamála og kynnir rannsóknastarfsemi í landinu.

Þótt Rannsóknamiðstöð Íslands sinni gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir Vísinda- og tækniráð munu menntamálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið að öðru leyti annast umsýslu fyrir vísindanefnd og tækninefnd. Er þetta í anda þess megintilgangs lagafrumvarps um Vísinda- og tækniráð að greina á milli stefnumótunar stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum annars vegar og úthlutunar styrkja og þjónustu við rannsóknaraðila hins vegar.

Herra forseti. Á aðalfundi Rannsóknarráðs Íslands í apríl sl. fjallaði ég í ræðu minni um nýskipan í vísinda- og tæknimálum á grundvelli frumvarpanna og benti á hversu mikilvægt mál væri hér á ferðinni. Um leið og ég ítrekaði þann eindregna ásetning ríkisstjórnarinnar að ráðast í þessar breytingar lýsti ég því yfir að ákveðið hefði verið að gefa tóm til að ná meiri almennri samstöðu um þessi mikilvægu nýmæli og eyða misskilningi sem upp hefði komið um mikið framfaramál. Frumvörpin yrðu því ekki afgreidd heldur lögð fyrir að nýju á þingi í haust. Sumarið yrði nýtt til að skoða málið í heild, m.a. í ljósi þess ágæta starfs sem unnið hafði verið innan nefnda Alþingis og þess freistað að renna sterkari stoðum undir samstöðu um málið. Í samræmi við framangreint skipaði ég sl. sumar nefnd undir forustu prófessors Hafliða Péturs Gíslasonar, formanns Rannsóknarráðs Íslands, til að fara yfir frv. þetta. Í nefndinni áttu einnig sæti Vilhjálmur Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs Íslands, Hilmar Janusson, þróunarstjóri Össurar hf., Jón Atli Benediktsson prófessor, formaður vísindanefndar Háskóla Íslands, Helga Waage tölvunarfræðingur, Ólafur G. Flóvenz, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs Orkustofnunar, og Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor.

Mikil og góð vinna fór fram í nefndinni sem m.a. fólst í því að fara ítarlega yfir allar umsagnir sem bárust menntmn. vegna frv. Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á frv. í samræmi við tillögur nefndarinnar:

Í fyrsta lagi hefur orðalagi í 2. gr. hefur verið breytt þannig að lögð er áhersla á hið faglega mat sem fram fer við styrkveitingar úr Rannsóknasjóði. Fellt var út ákvæði um að samningur um styrkveitingu yrði bundinn við rannsóknir ákveðinna einstaklinga hvort sem þeir eða fyrirtæki eða stofnanir sem þeir störfuðu hjá væru formlegir umsækjendur eða aðilar samnings. Óbreytt er hins vegar að Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefnunum. Í athugasemdum við 2. gr. frv. er á því byggt að Rannsóknasjóður geri samning um hverja styrkveitingu við styrkþega og fyrirtæki eða stofnanir sem veita rannsóknaraðstöðu.

Í 3. gr. þar sem fjallað er um tekjur Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs hefur 2. tölul. verið breytt og fellt út ákvæði sem fjallaði um tekjur af einkaleyfum og endurgreiðslur af styrkjum til verkefna sem notið hafa stuðnings sjóðsins. Ekki er talið eðlilegt að gera ráð fyrir tekjum af einkaleyfum eða endurgreiðslum styrkja. Í flestum tilfellum eru styrkir sjóðanna aðeins hluti af heildarframlögum til verkefnisins og því flókið og erfitt í framkvæmd að fá tekjurnar til baka. Þá er Tækjasjóði bætt við fyrirsögn greinarinnar sem áður vísaði einungis til tekna Rannsóknasjóðs. Greinin á við um tekjur beggja sjóðanna.

Í 4. gr. er kveðið á um að stjórn Rannsóknasjóðs sé heimilt að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum af ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs en bætt er við ákvæði um að það skuli gert að tillögu vísindanefndar.

Vísindanefndinni er jafnframt ætlað að skipa fagráð í stað stjórnar Rannsóknasjóðs, sbr. 5. gr. frv. Slíkt hlutverk vísindanefndar er í góðu samræmi við aðgreiningu stefnumótunar og úthlutunar styrkja. Einnig er lagt til að fagráð geti verið ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni, eftir því sem óskað er.

Í 6. gr. er gerð sú breyting að styrkir Rannsóknarnámssjóðs verða ekki einskorðaðir við rannsóknarnám á Íslandi og í 8. gr. er áréttuð verkaskipting vísindanefndar og stjórnar Rannsóknasjóðs undir samheitinu úthlutunarreglur.

10. gr. er breytt þannig að heiti þjónustumiðstöðvar vísindarannsókna verður Rannsóknamiðstöð Íslands auk þess sem hlutverk miðstöðvarinnar hefur í nokkrum atriðum verið gert skýrara. Þá er dagsetningum í bráðabirgðaákvæði frv. breytt, enda byggðust fyrri dagsetningar á því að frv. þetta yrði afgreitt á síðasta þingi.

Herra forseti. Ég tel að þessar breytingar séu allar til góðs en um leið er ekki vikið frá þeirri meginstefnu sem frv. þetta ásamt frv. forsrh. og iðnrh. byggja á. Ég vænti þess að frv. eins og það er lagt fram nú leiði til að unnt verði að afgreiða það ásamt hinum frv. tveimur, fljótt og örugglega. Að mínu mati hefur verið unnið í því að ná fram almennri samstöðu um þessi mikilvægu nýmæli og eyða misskilningi sem áður var uppi.

Með þessum orðum, herra forseti, legg ég frv. fram og óska eftir því að eftir umræðuna verði því vísað til hv. menntmn.