Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:08:57 (1545)

2002-11-18 16:08:57# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem er 345. mál þingsins, á þskj. 381.

Frumvarpið er nú flutt í annað sinn en það var ekki afgreitt frá þingnefnd á 127. löggjafarþingi. Ástæða þess skýrist af því að hér er um að ræða veigamestu breytingu sem gerð hefur verið á stuðningsumhverfi opinberra rannsókna frá því lögin um rannsóknir í þágu atvinnuveganna voru sett árið 1965.

Frumvarpið sem er eitt þriggja samstæðra frv. um nýsköpun vísindarannsókna og nýsköpun snertir starfsskilyrði fjölda fólks, stofnana og fyrirtækja. Því er mikilvægt að sem flestir úr þessum stóra hópi hafi tækifæri til að kynna sér málið og koma á framfæri skoðunum um það. Undanfarna mánuði hefur tíminn verið notaður til að fara yfir þær athugasemdir sem fram komu í tengslum við nefndastörf þingsins sl. vor og þær athugasemdir sem bæst hafa við síðan. Ég get óhikað sagt að mjög er til bóta að tími gafst til að fara betur ofan í einstök atriði málsins, enda finn ég að nú er orðinn víðtækari skilningur á eðli málsins og mun meiri sátt um það en áður var.

Frumvarp þetta er hluti af þeirri nýskipan vísinda- og tækniþróunar sem grunnur er lagður að í frv. til laga um Vísinda- og tækniráð, sem hæstv. forsrh. hefur mælt fyrir. Í því frv. er gert ráð fyrir að til verði nýtt ráð, Vísinda- og tækniráð, sem starfi undir yfirstjórn forsrh., og fari með heildarstefnumótun um málefni er tengjast vísindarannsóknum og tækniþróun. Ávinningur þessi er einkum sá að vægi málaflokksins vex og að stefnumótunin og framkvæmd hennar verður markvissari en áður.

Eitt helsta inntak þessarar nýskipunar er að stefna í vísindarannsóknum og tækniþróun muni setja svip sinn á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma í efnahags- og atvinnumálum. Þetta getur leitt til þess að ný fræðasvið nái að gefa af sér efnahagslegan ávinning fyrir þjóðina fyrr en ella hefði verið. Vísinda- og tækniráðinu er ætlað að fjalla bæði um vísindarannsóknir og nýsköpunarmálefni. Vísindarannsóknir heyri undir menntmrh. samanber frv. það sem hann hefur nú mælt fyrir, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, en nýsköpun og tækniþróun í þágu efnahagslegra framfara falli undir iðnrh., samanber frv. þetta.

Frumvarpið hefur að markmiði að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Því markmiði verður best náð með því að byggja upp tæknilega getu fyrirtækja og frumkvöðla til að takast á við tækniþróun sem leitt geti til nýsköpunar atvinnulífsins. Frumvarpið fjallar um þær aðgerðir sem beita þarf til þess að vísindaleg þekking geti orðið að söluhæfum afurðum, vörum og þjónustu og þannig skilað fjárfestingum í vísindarannsóknum út í atvinnulífið. Farvegur þessara aðgerða er annars vegar nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og hins vegar Tækniþróunarsjóður.

Kveðið er á um nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í 3. og 4. gr. frv. Henni er ætlað að vera vettvangur fyrir miðlun þekkingar til fyrirtækja og frumkvöðla, þar sem m.a. verður veitt leiðsögn um stofnun og rekstur fyrirtækja, tæknileg úrlausnarefni leyst og nýrri þekkingu miðlað til atvinnulífsins. Þessi þekkingarmiðlun er forsenda þess að atvinnulífið geti fylgst með alþjóðlegri þróun og staðist aukna samkeppni á alþjóðamarkaði.

Að auki er Nýsköpunarmiðstöðinni ætlað að hafa frumkvæði um gagnvirkt samstarf á milli vísindamanna, stofnana og fyrirtækja, um málefni er lúta að nýsköpun. Hér er ekki um nýja starfsemi að ræða, heldur fyrst og fremst verið að festa í sessi og útvíkka starfsemi sem rekin hefur verið í nokkur ár sem reynsluverkefni hjá Iðntæknistofnun undir nafninu IMPRA.

Um Tækniþróunarsjóð er fjallað í 4.--7. gr. frv. Tækniþróunarsjóði er ætlað að koma að fjármögnun þróunar nýsköpunarverkefna í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs. Um er að ræða aðkomu á frumstigi nýsköpunarinnar við lok hagnýtra rannsókna. Á frumstigi nýsköpunar eiga sér stað markvissar rannsóknir og tækniþróun með markaðs- og notendatengdum áherslum. Það er á því stigi sem reynir á hvort hin vísindalega þekking getur orðið að söluhæfri vöru.

Áherslur Vísinda- og tækniráðsins á hverjum tíma verða ráðandi um starfsemina, en mikilvægt er að ráðið geti tryggt það að vísindaþekkingin fái eðlilega útrás og leiði í reynd til eflingar atvinnulífinu og til efnahagslegra framfara fyrir þjóðina. Sjóðnum er ætlað að vera brú á milli þess er stuðningur Rannsóknasjóðs samkvæmt frv. menntmrh. um opinberan stuðning við vísindarannsóknir sleppir og þess að framtaksfjárfesta fýsir að koma að nýjum nýsköpunarverkefnum. Mjög hefur skort á opinberan stuðning við þetta frumstig nýsköpunarinnar.

Hæstv. forseti. Ég gat þess hér að framan að undanfarnir mánuðir hafi verið notaðir til að endurskoða frv. frá því í vor. Af þeim athugasemdum sem fram hafa komið ber nokkuð á því að ekki eru allir sammála um skipan í ráð og stjórnir. Sammerkt með þessum athugasemdum er að öllum finnst að hlutur þeirra sjálfra eigi að vera meiri. Einnig hefur ítrekað verið bent á að í fyrirliggjandi frumvörpum sé ekki tryggt fé í Tækniþróunarsjóðinn sem á að bera uppi tækniþróunina og nýsköpunina á sambærilegan hátt og Rannsóknasjóður styðji vísindasamfélagið.

Um þetta atriði hef ég ítrekað bent á að frv. þrjú sem hér eru til umræðu fjalla eingöngu um skipulagsbreytingar á umhverfi opinbers stuðnings við vísindi, tækniþróun og nýsköpun. Stefnumótun Vísinda- og tækniráðsins mun aftur á móti verða ráðandi um hversu mikið fé fæst til málaflokksins í heild sinni og hvernig deilingu þess fjár verður háttað til að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd. Ég tel að ef vel tekst til með störf Vísinda- og tækniráðsins þá megi gera ráð fyrir að heildarfjárveiting til málaflokksins vaxi frá því sem nú er.

Varðandi þær breytingar sem gerðar hafa verið frá því í vor er sennilega mikilvægast að hlutverk Rannís, sem nú heitir Rannsóknamiðstöð Íslands, hefur verið stórlega eflt og verður Rannís nú eins konar samnefnari málaflokksins. Rannís mun gegna mikilvægu hlutverki fyrir tækniþróunina og nýsköpunarþátt málsins, en hafði enga aðkomu að honum áður. Þannig mun Rannís annast vörslu, umsýslu og rekstur Tækniþróunarsjóðs á sama hátt og Rannsóknasjóðs. Einnig mun Rannís taka að sér veigamikið hlutverk er lýtur að því að fylgjast með stöðu og þróun nýsköpunar atvinnulífsins á sama hátt og það fylgist með stöðu og þróun vísindasamfélagsins.

Önnur veigamikil breyting er að nú er gert ráð fyrir að í stjórn Tækniþróunarsjóðs sitji sjö manns í stað fimm áður. Við bætast stjórnarmenn samkvæmt tilnefningu landbrh. og sjútvrh. sem er í samræmi við það grundvallarsjónarmið að frv. er ætlað að ná til opinbers stuðnings við tækniþróun og nýsköpun í þágu alls atvinnulífsins.

Í mínum huga er tilkoma Vísinda- og tækniráðsins stærsta tækifærið sem boðist hefur til að sýna fram á mikilvægi vísindarannsókna og nýsköpunar fyrir atvinnulífið. Fjárveitingar til málaflokksins hafa um margra ára skeið einkennst af stöðnun og litlum áhuga á að endurskoða hið viðtekna fyrirkomulag. Þessi nýskipan getur breytt þessu, enda mun það leiða til samræmdrar stefnumótunar og gera kleift að veita nýjum fræðasviðum brautargengi, langt umfram það sem unnt hefur verið hingað til.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn. að lokinni umræðu og ég vil líka benda á að mikilvægt er að frv. þrjú sem hér hafa verið lögð fram verði skoðuð saman sem heild.