Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:50:30 (1552)

2002-11-18 16:50:30# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:50]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þm. efast um að hér sé farin rétt leið í sambandi við vísindarannsóknir og tengingu þeirra við atvinnulífið. Hann talar um að verið sé að binda vísindasamfélagið við hið pólitíska vald.

Ég tel að þarna sé ákveðinn misskilningur á ferðinni. Ég tel einmitt að það sé þessum málaflokki til framdráttar --- nú efast ég í rauninni ekkert um að hv. þm. vill þessum málaflokki vel --- ég held að það sé þessum málaflokki til framdráttar að tengja hann við ákveðinn og tiltölulega stóran hluta ríkisstjórnarinnar og það megi kannski kalla að með því séum við að lyfta honum svolítið upp á æðra plan.

Nú er það ekki þannig að ráðherrar komi til með að leggja línur í smáatriðum hvað þetta varðar heldur munu þeir leggja stóru línurnar. Með því að ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að þessu skuli vera þannig háttað að svona sé þá hlýtur það að gefa ákveðin skilaboð um að ríkisstjórninni finnist þetta mikilvægur málaflokkur. Það held ég að sé nú dálítið stórt atriði í sambandi við þetta allt.

Hv. þm. efaðist um að rétt væri að tengja vísindasamfélagið við atvinnulífið. Ég er honum mjög ósammála um það. Ég er sannfærð um að með þessari þrennu sem er hér til umfjöllunar séum við að gera atvinnulífinu mikið gagn. Við erum að breikka atvinnulífið, breikka grundvöll atvinnulífsins og það er nú eitthvað sem hv. þm. Vinstri grænna hafa verið að finna að við mig og við iðnrn., að við horfum ekki á atvinnulífið á breiðum grundvelli.