Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:54:34 (1554)

2002-11-18 16:54:34# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:54]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þm. hefur hrokkið nokkuð við þegar ég talaði um æðra plan. Ég veit að hann ber ekkert sérstaklega mikla virðingu fyrir þeim ráðherrum sem nú sitja á þessum bekkjum. En hver veit nema það geti orðið einhverjir aðrir síðar. Það er nú þannig að ráðherrar þeir sem velgja stólana hverju sinni hafa þó nokkur völd og miðað við það að ráðherrar komi meira að þessum málaflokki, og þá sérstaklega að hæstv. forsrh. þjóðarinnar komi meira að þessum málaflokki, vil ég skilja sem svo að sé jákvætt fyrir málaflokkinn. Svo getur hv. þm. verið annarrar skoðunar.

En það var líka gaman að heyra hv. þm. tala um frelsi. Hann vill gefa mikið frelsi. Ég held nú samt að með þessum frv. séum við ráðherrarnir ekki að binda eða njörva niður hvernig staðið verður að vísindum í landinu. Það er ekki þannig og vísindamenn munu að sjálfsögðu hafa frelsi áfram til þess að móta stefnu að verulegu leyti.

Ég tel þetta mikilvægt í sambandi við atvinnulífið, en hv. þm. hefur líka efasemdir um að þetta sé til góðs fyrir atvinnulífið. Talað hefur verið um að hér væri ákveðin nýsköpunargjá, sem sagt að vísindarannsóknir næðu ekki að efla atvinnulífið. Þessa nýsköpunargjá ætlum við að brúa með þeirri þrennu sem hér liggur fyrir til umfjöllunar. Hvort það tekst eða ekki verður tíminn að leiða í ljós. En viljinn er alla vega fyrir hendi.