Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:56:20 (1555)

2002-11-18 16:56:20# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá vakir ekki fyrir mér að gera lítið úr ríkisstjórn Íslands, alls ekki. Ég hef hins vegar gagnrýnt það sem mér hefur fundist yfirlætisfullt orðalag, annars vegar það að tala um að lyfta þessum málaflokki upp á æðra plan með því að tengja það Stjórnarráðinu og þeim hæstv. ráðherrum sem leyfa sér að tala á þennan hátt. Ég hef talað fyrir því að í stað þess að auka miðstýringu af því tagi sem hér er boðuð þá beri þvert á móti að stuðla að valddreifingu og auknu sjálfstæði vísindamanna og rannsóknastofnana. Það er kjarninn í málflutningi mínum.

Í annan stað tel ég að það sé ekki skipulagsformið sem hafi staðið í vegi fyrir vísindarannsóknum á Íslandi heldur skortur á fjármunum. Ég tel að hæstv. ráðherrar þurfi að tjá sig miklu nánar og skýrar um þennan þátt málsins, þ.e. hvað standi til í þessu efni.

Ég hef einnig vikið að því að það er svolítið villandi að slá fram almennum prósentutölum, hlutfallstölum, um framlag til vísindarannsókna en láta liggja á milli hluta hvernig þessir fjármunir skiptast.