Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 17:04:31 (1559)

2002-11-18 17:04:31# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[17:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að við þurfum að fara í saumana á þessum tölum í umfjöllun nefnda. En eftir því sem ég hef upplýsingar um eru þeir aðilar sem veitt hafa styrki til rannsókna á undanförnum árum ekki ofsælir af því fjármagni sem þeir hafa haft á milli handa. Ef við skoðum t.d. hlutskipti þeirra, Rannís svo dæmi sé tekið og ýmissa vísindastofnana sem sinna grunnrannsóknum eða rannsóknum yfirleitt, þá er ekki saman að jafna annars vegar stöðu þeirra og hins vegar þeim fjármunum sem ýmis fyrirtæki, t.d. á borð við Íslenska erfðagreiningu, hafa haft á milli handanna. Það eru peningar, fjármunir, verðmæti sem eru tekin út úr íslensku samfélagi að sjálfsögðu fyrir milligöngu banka og ríkisvalds beint og óbeint. Þessu fjármagni hefur því verið beint inn á slíkar brautir í ríkari mæli en áður hefur verið.

Það á að efla tengslin á milli atvinnulífs, stjórnmálamanna og vísindarannsókna, segir hæstv. ráðherra. Spurningin er hvernig þetta er gert. Beita stjórnmálamenn t.d. áhrifum sínum í þá átt að draga úr fjárstreymi til vísindastofnana og beina fyrirtækjum sem þeir byrja á að létta sköttum af, eins og hér kom fram hjá hæstv. ráðherra, inn á þetta svið, inn á vísinda- og rannsóknasviðið? Þetta gæti orðið til þess að draga úr sjálfstæði akademískra rannsókna.

Ég er ekkert að tala hér í einhverju tómarúmi. Ég er að enduróma umræðu sem fram fer um allan heim. Ég var að lesa grein ekki alls fyrir löngu í læknatímaritinu Lancet þar sem menn hafa þungar áhyggjur yfir framvindunni í grunnrannsóknum í læknavísindum einmitt vegna þessara þátta sem ég hef verið að nefna hér.