Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 17:27:51 (1563)

2002-11-18 17:27:51# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[17:27]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. síðasti ræðumaður hefur sama skilning og ég á því að hugvísindi geti haft mikla þýðingu fyrir atvinnulífið.

Ef við tökum sem dæmi félagsvísindi þá hefur það verið of áberandi að félagsvísindi hafa þróast án mikilla tengsla við atvinnulífið. Engu að síður er í félagsvísindum, þeim greinum sem flokkast sem félagsvísindi, stór og mikil þekkingarsvið sem geta nýst atvinnulífinu mjög verulega, ég nefni t.d. sérstaklega ferðaþjónustuna. Þannig er mikilvægt fyrir vísindamennina sem vinna innan þessara sviða að þeir skynji sjálfir að þeir eigi erindi, ekki bara í grunnvísindum heldur einnig í hagnýtum vísindum. Ég reikna með því að sú breyting sem hér er verið að vinna að gæti jafnvel leitt til þess að vísindamennirnir sjálfir skilgreini starf sitt svolítið með öðrum hætti en hingað til.