Samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:34:21 (1569)

2002-11-19 13:34:21# 128. lþ. 32.91 fundur 251#B samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:34]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessar upplýsingar og fagna því að menn hafi náð samkomulagi við Samtök aldraðra. Það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin standi við þau orð og loforð sem hún hefur gefið öldruðum í þessum samningaviðræðum.

Vissulega er verið að leysa mjög brýna þörf fyrir hjúkrunarrými með því að koma á aðstöðu á Vífilsstöðum fyrir hjúkrunarsjúklinga. Engu að síður fær mjög stór hópur ekki þjónustu sem skyldi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, og vænti ég þess að farið verði í að leysa einnig vanda þess hóps.

Herra forseti. Öryrkjabandalag Íslands hefur leitað eftir samráði við ríkisstjórnina um kjör þeirra og einnig um það hvernig menn muni halda upp á ár fatlaðra sem senn gengur í garð. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað með samráð við Öryrkjabandalagið og öryrkja? Öryrkjabandalag Íslands hefur auglýst ítrekun til stjórnvalda með heilsíðuauglýsingum í blöðum en hefur ekki fengið nein svör núna í heilt ár frá stjórnvöldum um samráð við þá um þeirra kjör. Hæstv. ráðherra talaði um að öryrkjar fengju sambærilegar úrbætur og aldraðir samkvæmt þessu samkomulagi við aldraða. En ég mundi gjarnan vilja fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við gagnvart öryrkjunum. Munu ríkisstjórnin verða í samráði við þá? Og hvernig hyggst ríkisstjórnin taka á þeim kröfum sem snúa að ári fatlaðra sem hefst um næstu áramót?

Ég verð að segja að það er ákveðinn áfellisdómur yfir ríkisstjórninni að svona auglýsing þurfi að birtast ítrekað frá stórum hagsmunasamtökum eins og Öryrkjabandalagi Íslands.