Matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:50:56 (1577)

2002-11-19 13:50:56# 128. lþ. 32.92 fundur 252#B matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:50]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Hér er óneitanlega uppi nokkuð einkennileg staða. Það er enginn til svara fyrir ráðuneyti umhverfismála á Íslandi, ekki sá hæstv. ráðherra sem settur hefur verið í úrskurði um Norðlingaölduveitu né heldur hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir.

Hvað ber þá að gera? Er í raun ekki hægt, herra forseti, að taka hér efnislega umræðu um umhverfismálin, virkjanastefnuna og um stöðu málsins, sem reyndar er í kæruferli hjá ráðherra vegna Norðlingaölduveitu? Þetta er óneitanlega mjög einkennileg staða, herra forseti, í ljósi þess að einhvers staðar annars staðar í stjórnkerfinu er unnið að gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hvenær skyldi sú áætlun nú líta dagsins ljós, herra forseti? Skyldi það vera þegar Þjórsárver verða komin undir vatn? Skyldi það verða þegar búið verður að reikna út í hörgul hagkvæmni þess að virkja Jökulsá á Fjöllum?

Herra forseti. Þetta gengur ekki svona. Það er ekki hægt að vera í pukri með þessar miklu ráðagerðir. Það verður einhver að svara fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar. Hvernig vindur málum fram og hvernig á að bregðast við þeim hörðu ásökunum sem komið hafa fram um gerð matsskýrslu og vinnuna við umhverfismatið á Norðlingaölduveitu? Það gengur ekki, herra forseti, að hér séu engu svarað.