Matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:54:56 (1579)

2002-11-19 13:54:56# 128. lþ. 32.92 fundur 252#B matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hann veitti og ég tel að þær sýni að við hefðum vel getað rætt hér um almenna stöðu málsins án þess að ráðherra hefði á nokkurn hátt gert sig vanhæfan til að fella síðan úrskurð. Það er eitt að ræða um stöðu máls, vinnu, undirbúning og allar kringumstæður, og annað hið efnislega innihald.

Ég lít svo á að hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson sé umhverfisráðherrann í þessu máli. Það getur auðvitað ekki verið þannig að til hans sé bara vísað því að ganga frá úrskurðarorðum. Hann tekur við málinu í heild sinni úr því að hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir segir sig frá málinu.

Það er svo reyndar sérstakt umræðuefni, herra forseti, hvort það á að vera þannig að það sé geðþóttamat ráðherra hvenær þeir telji sjálfa sig hæfa og hvenær ekki. Ég vek athygli á því að nú telur hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir sig vanhæfa til að fella úrskurð af því að hún hafi látið ummæli falla um verndargildi Þjórsárvera. Sami ráðherra taldi sig ekki vanhæfa til að fella úrskurð um Kárahnjúkavirkjun þó að hún hefði áður lýst því yfir að hún styddi stefnu ríkisstjórnarinnar um að byggja þá virkjun. Þetta er nokkuð sérkennilegt, herra forseti, þegar þetta er borið saman.

Svo vil ég segja það að lokum að ef ég man rétt þá er þetta í þriðja skiptið sem það gerist á örstuttum tíma að hæstv. ráðherrar ákveða í raun að taka ekki utandagskrárumræður sem til þeirra er beint. Það eru nokkrir dagar síðan hæstv. sjútvrh. neitaði hreinlega að ræða hér um málefni kræklingaræktar. Þetta á auðvitað ekki að vera svona, herra forseti. Það þarf að fara ofan í saumana á því hvort hæstv. ríkisstjórn er einnig að þessu leyti að koma upp nýjum hefðum og siðum gagnvart rétti þingmanna, sem bundinn er í lögum og stjórnarskrá, til að krefjast upplýsinga og nota þennan vettvang til þess. Þann rétt er verið að takmarka með framkvæmd og hefðarhelgun af þessu tagi. Ég kann því illa.