Matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:58:57 (1581)

2002-11-19 13:58:57# 128. lþ. 32.92 fundur 252#B matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að á þeim síðustu dögum sem hann er að fara yfir kæruatriði í þessu viðkvæma máli sé eðlilegt að hann einbeiti sér að því og tjái sig ekki um það. En það dreg ég ekki í efa að þegar sá úrskurður liggur fyrir mun hæstv. ráðherra mjög fúslega og greinilega tjá sig um skoðanir sínar á málinu.

En ég vil vekja athygli á því að í þeim stuttu ræðum sem hér hafa verið fluttar um þetta mál hafa nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðu verið nokkuð ónákvæmir í orðavali. Hér hefur m.a. verið ýjað að því að matsskýrsla og matsferli séu ónýt. Það er að vísu sett fram í spurningarformi. Hér hefur verið talað um að sökkva Þjórsárverum. Hér hefur verið talað um að erfitt sé að fá hlutlausa aðila til skoðunar.

Mér vitanlega eru engin áform uppi um að sökkva Þjórsárverum, svo að ég nefni það sem dæmi. Það að ýja að því að matsferli og matsskýrsla séu ónýt er í raun afskaplega alvarleg ásökun gegn þeirri stofnun sem er hinn hlutlausi aðili og hvergi hefur verið nefnd hér, þ.e. Skipulagsstofnun sem lagði blessun sína yfir matsferlið, tók við matsskýrslu og jafnframt grunngögnum frá ýmsum aðilum sem höfðu athugasemdir fram að færa. Ég vek athygli á því að hvergi er minnst á þá stofnun, ekki einu einasta orði, þó hún gegni lykilhlutverki í öllu ferlinu um mat á umhverfisáhrifum. (SJS: Líka á Kárahnjúkavirkjun?)