Ábyrgðir vegna lánaflokks í Norræna fjárfestingarbankanum til umhverfismála

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:05:55 (1583)

2002-11-19 14:05:55# 128. lþ. 32.6 fundur 356. mál: #A ábyrgðir vegna lánaflokks í Norræna fjárfestingarbankanum til umhverfismála# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um auknar ábyrgðir vegna lánaflokks í Norræna fjárfestingarbankanum til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.

Eins og rakið er í greinargerð með frv. þessu samþykktu fjármálaráðherrar Norðurlanda á fundi sínum í júní sl. að hækka útlánaramma Norræna fjárfestingarbankans vegna lána til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna úr 100 í 300 millj. evra. Fyrri heimildir bankans eru senn fullnýttar og bankinn telur sig ekki geta mætt þeim skuldbindingum sem honum hafa verið lagðar á herðar af hálfu ráðherranefndarinnar á þessu sviði nema með hækkun útlána\-rammans.

Þar sem Norðurlöndin ábyrgjast þessi lán að fullu felst jafnframt í ákvörðuninni að ábyrgðir landanna aukist sem þessu nemur. Hlutdeild Íslands í ábyrgðum vegna lánaflokksins á móti hinum Norðurlöndunum er 1,1%, og verði frv. að lögum mun ábyrgð Íslands því aukast úr 1,1 millj. evra í samtals 3,3 millj. evra, þ.e. í um 280 millj. kr.

Í 1. gr. frv. er farið fram á að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs verði heimilað að ábyrgjast hluta Íslands vegna hækkunar útlánaramma bankans vegna þessa málaflokks þannig að heildarábyrgð ríkisins vegna málaflokksins megi nema allt að 3,3 millj. evra.

Í 2. gr. frv. er farið fram á að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs verði heimilað að ganga frá samningi við Norræna fjárfestingarbankann um framangreinda ábyrgð og staðfesta nauðsynlegar breytingar á samþykktum hans vegna hækkunarinnar.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. en jafnframt til hv. efh.- og viðskn. þingsins.