Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:25:20 (1591)

2002-11-19 14:25:20# 128. lþ. 32.9 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú undir lokin var hæstv. ráðherra farinn að nálgast kjarna málsins. Frv. þetta er lagt fram að beiðni stjórnar lífeyrissjóðsins. Ekki efast ég um það. Það er til þess að bæta stöðu sjóðsins, að sögn. Hvernig er það gert? Jú, með því að skerða réttindi sjóðfélaga. Þetta er sjóðurinn knúinn til að gera vegna neikvæðrar ávöxtunar á undanförnum árum en það eru tvær aðrar ástæður sem einnig liggja að baki.

Í fyrsta lagi er Lífeyrissjóður sjómanna, öðrum lífeyrissjóðum fremur, tryggingasjóður vegna slysa, örorku. Lífeyrissjóður sjómanna borgar yfir 40% í örorkubætur miðað við rúm 20% hjá flestum öðrum sjóðum. Á honum eru því þyngri byrðar en á öðrum sjóðum.

Önnur ástæðan fyrir því hve sjóðurinn stendur veikt sú að ríkisvaldið hefur aldrei staðið við skuldbindingar sem gefnar voru fyrir rúmum 20 árum í tengslum við kjarasamninga árið 1981. Þá afsöluðu sjómenn sér hlutdeild í fiskverði upp á 3% gegn ákveðnum réttindum inni í sjóðnum. Þegar það kemur síðan á daginn að ríkisvaldið stendur aldrei við skuldbindingar sínar er farið að berjast fyrir þessu af hálfu sjómannasamtakanna og hér í þingsal einnig. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur margoft flutt frumvörp og þingmál um þetta efni. Ég man ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherrar, alla vega forveri hæstv. fjmrh. Geirs H. Haardes, hafi einhverju sinni tekið vel í þá málaleitan að íhuga þann kost að ríkið kæmi með myndarlega innspýtingu í sjóðinn. Nú talar hæstv. ráðherra hins vegar um nauðsyn þess að afnema lögin um Lífeyrissjóð sjómanna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki komi til greina að veita Lífeyrissjóði sjómanna fjárhagsstuðning í ljósi sögunnar.