Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:52:04 (1595)

2002-11-19 14:52:04# 128. lþ. 32.9 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breyting á lögum nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna. Ég vil leggja örfá orð í belg. Í athugasemdum með frv. segir:

,,Frumvarp þetta til breytingar á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna er lagt fram að beiðni stjórnar sjóðsins. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um ellilífeyri og makalífeyri. Tilgangurinn er að bæta stöðu sjóðsins, en samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt Talnakönnunar hf., dags. 13. febrúar 2002, á stöðu sjóðsins miðað við 31. desember 2001 vantaði 7.514 milljónir kr. á að sjóðurinn ætti eignir á móti heildarskuldbindingum, eða 8,8%.``

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Fyrr í vetur fjölluðum við um frv. til laga um Lífeyrissjóð sjómanna um að útgerðin kæmi tímabundið meira að greiðslu í Lífeyrissjóð sjómanna til að forða honum frá þeirri skerðingu sem gera á með frv. sem nú er komið fram.

Ég lýsti því í umræðunni þá að ég væri hlynntur hugmyndum hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um að útgerðin tæki á sig auknar greiðslur tímabundið til þess að rétta af stöðu sjóðsins. Réttlætingin fyrir tillöguflutningi af því tagi er augljós. Það liggur ljóst fyrir að Lífeyrissjóður sjómanna virkar að miklu leyti sem slysatryggingasjóður, eins og komið hefur fram í málflutningi á hinu háa Alþingi. Sjóðurinn þarf að standa undir óheyrilegum tölum í sambandi við örorkubætur eða 43% meðan landsmeðaltal annarra sjóða er ekki nema 26% og margir af sjóðunum greiða í kringum 20--22% í örorkubætur. Mér virðist því ljóst að lífeyrissjóðurinn virki í raun og veru að mjög miklu leyti sem eins konar slysatryggingasjóður fyrir mjög áhættusama starfsgrein, þ.e. sjómannsstarfið.

Það er að mínu mati sanngirnismál að útgerðin komi meira inn í þennan þátt hvað lífeyrissjóðinn varðar en hún gerir í dag. Þá finnst mér koma til greina að auka greiðslur útgerðarinnar tímabundið inn í lífeyrissjóðina eða semja á einhvern annan hátt um aðkomu útgerðarinnar að slysatryggingu sjómanna, þ.e. utan lífeyrissjóðakerfisins. Ég tel augljóst að slíkt verði að gera.

Það hafa verið gerðar úttektir á örorkuhlutfalli eftir svæðum. Það er áberandi, þó að ekki hafi komið fram heildstæð samantekin gögn um það, hve örorka er miklu meiri á þeim svæðum sem útgerð er ríkjandi í atvinnu manna. Þar nefni ég sem dæmi Norðurland eystra. Hér á hinu háa Alþingi var um daginn samþykkt að gera skýrslu þar að lútandi og taka saman hverjar væru orsakirnar fyrir þeirri stöðu.

Aðrar hugmyndir hafa einnig komið fram. Þar á hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson einnig hlut að máli. Við höfum báðir reifað þá hugmynd að við ákvörðun um 5% meðafla rynni ágóðinn af því tímabundið til að styrkja Lífeyrissjóð sjómanna. Það er bein tenging við greinina og mundi hvetja menn til að fara vel með þá hlutdeild. Á fyrri helmingi ársins voru þetta verulegar upphæðir. Mig minnir að talað væri um að 80--90 millj. kæmu inn í þann sjóð en sá sjóður rennur núna til hafrannsókna og er til ráðstöfunar þar. Það væri ekki óeðlilegt að skoða hlutina í þessu ljósi og ganga til samninga við útgerðarmenn um aukna hlutdeild og að einhverju leyti aðkomu ríkisins að sjóðnum til að styrkja hann.

Það kom fram í umræðunni fyrr í haust að ríkisvaldið bæri mikla ábyrgð á Lífeyrissjóði sjómanna. Með breytingum sem gerðar voru á möguleikum manna til að taka eftirlaun, þ.e. þegar það var fært niður í 60 ár á sínum tíma, komu upp, eftir því sem maður les sér til í ræðum á hinu háa Alþingi, mjög sterk vilyrði fyrir því að ríkisstjórnin og ríkissjóður kæmi á einhvern hátt að styrkingu sjóðsins og mundi veita peninga í sjóðinn til þess að hann gæti staðið við þær skuldbindingar sem sköpuðust af því að menn gátu farið á eftirlaun við 60 ára aldur.

Virðulegi forseti. Hin mikla byrði sem örorkan er á sjóðnum gerir það fyrst og fremst skyldu okkar að taka þennan sjóð til sérstakrar meðhöndlunar. Hlutfall upp á 43% í örorkugreiðslur getur ekki talist sanngjarnt þegar aðrir eru í kringum 20--26%. Menn eiga að taka höndum saman og það er sanngirnismál. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort honum þyki ekki í ljósi stöðunnar sanngirnismál að útgerðin taki þátt í að rétta þennan sjóð af tímabundið eins og tillaga hefur verð gerð, um 2% aukningu á greiðslu í sjóðinn af hendi útgerðarinnar.

Ég vil líka benda á þann möguleika að útgerðin gangi til samninga við sjóðinn að einhverju leyti um slysatryggingar sem yrðu þá utan við sjóðsdæmið þannig að þær yrðu sterkari og sjómannastéttin kæmi ekki eins illa út af örorku í þessum sjóð og raun ber vitni. Það er ekki sanngjarnt.

Að endingu minni ég á það sem ég nefndi áðan, að 5% meðafli og þeir peningar sem fást fyrir hann, sem er í sjálfu sér ágætisfyrirkomulag, væri bein tenging við útgerðina og sjómenn. Þeir peningar sem þar koma inn geta verið verulegir, kannski töluvert á annað hundrað millj. á ári væri hægt að nota tímabundið til að rétta af stöðu sjóðsins.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Það lýsir náttúrlega stöðu sjóðstjórnarinnar. Hún gerir sér grein fyrir því að sjóðurinn stendur ekki vel. Ein lausnin er auðvitað að fara þá leið sem hér er farin til lækkunar, biðja um hana. Hins vegar gefast einnig þessar leiðir sem hér hefur einnig verið bent á í ræðum á hinu háa Alþingi. Það eru þingmál fyrir þinginu sem styðjast við þá röksemdafærslu að opinberum aðilum og útgerðinni sjálfri beri að renna styrkari stoðum undir sjóðinn og treysta hann til framtíðar.