Aukatekjur ríkissjóðs

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 15:01:51 (1597)

2002-11-19 15:01:51# 128. lþ. 32.10 fundur 322. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (ýmsar gjaldtökuheimildir) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[15:01]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. sem hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir, um breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, er í sjálfu sér ekki stórt í sniðum. Það minnir okkur samt á þá stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur haft uppi, þ.e. að fjármagna hina ýmsu opinberu þjónustu og almannaþjónustu með notendagjöldum. Þannig á sá sem þarf á viðkomandi grunnþjónustu að halda að greiða fyrir hana þó að stór hluti af þeirri þjónustu sem verið er að innheimta gjald fyrir ætti að tilheyra almennri grunnþjónustu sem ætti að standa til boða á félagslegum eða opinberum grunni.

Þetta er hin nýja tegund skattheimtu sem verið er að innleiða, að gjald sé innheimt hér og þar. 4. gr. þessa frv. til laga sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir er svo sem táknræn, þ.e. innheimta á 5 þús. kr. fyrir það ef einhver landeigandi vill friðlýsa æðarvarp sitt, sem sagt fá að njóta þeirra réttinda að lýsa því yfir að ekki megi ganga um æðarvarp á ákveðnum tíma og að æðarvarp njóti friðar um varptímann. Þarna skal innheimta 5 þús. kr. fyrir.

Þau eru orðin mjög mörg, dæmin í þessu samfélagi þar sem alls staðar á að borga fyrir það að vera nánast til. Það liggur við að þegar maður er genginn út fyrir þröskuldinn verði maður að borga notendagjald hér og notendagjald þar. Þetta er hin nýja tegund af skattheimtu sem ég tel að sé komin út í fullkomnar öfgar. Við eigum að byggja upp í landinu ákveðna stoðþjónustu, grunnþjónustu sem öllum er opin og allir fá að njóta, og ríki og sveitarfélög eiga að standa opinberlega straum af kostnaðinum við hana. Það á ekki að innheimta notendagjöld eða leyfisgjöld fyrir hana. Við fórum í gegnum umræðu í vetur þar sem aukin gjöld voru lögð á nemendur í framhaldsskólum og sérskólum. Alls staðar birtist þessi nýja skattheimta og hún kemur á alla hvort sem þeir hafa tekjur til að standa undir henni eða ekki.

Herra forseti. Ég vildi bara draga athyglina að þessari nýju skattstefnu ríkisstjórnarinnar, að leggja skatta á allt sem hægt er að skattleggja í formi leyfisgjalda og notendagjalda. Mér finnst komið langt út fyrir öll eðlileg mörk þó að ég sé ekki þar að vitna beint til þessa litla frv. þar sem verið er að bæta einum þrem liðum við skattasarp ríkisstjórnarinnar. Það er táknrænt að það síðasta sem lagt er til í þessu frv. er að vilji einhver friðlýsa æðarvarpið sitt og njóta með því friðar með atvinnulíf sitt og það sem því tilheyrir og líka friða náttúru þess svæðis meðan á varpi stendur þurfi hann að borga 5 þús. kr. fyrir. Skattheimtan á sér ekki takmörk, herra forseti.