Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:11:58 (1604)

2002-11-19 16:11:58# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:11]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það eru hérna nokkur atriði sem ég ætla aðeins að koma inn á. Hvað hef ég langan tíma núna?

(Forseti (ÁSJ): Fimm mínútur.)

Fimm mínútur, já. Það er ekki langur tími.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði um innherjaviðskipti og kínamúra aftur og taldi að það væri umhugsunarefni hvort ekki ætti að takmarka að fyrirtæki versli fyrir eigin reikning.

Staðreyndin er sú að við því sem hefur komið upp á síðustu missirum í sambandi við það ákvæði sem hún talar um --- það er þá helst Skeljungsmálið --- var brugðist strax. Við höfum þegar breytt löggjöfinni þannig að slíkt ætti ekki að geta komið upp aftur.

Í sambandi við deCODE var líka brugðist við því með lagabreytingu eftir að þau bréf fóru að falla á markaði og upp komu mál sem var eðlilegt að fólk gerði athugasemdir við. Staðreyndin er sú að núna er aðeins hægt að kaupa á ,,gráa markaðnum`` ef aðili hefur verið metinn fyrir fram. Með þessu móti er breytingin það mikilvæg að mínu mati að dæmi eins og átti sér stað í tengslum við viðskiptin með deCODE, þegar markaðurinn mat þau bréf hvað hæst, geta ekki komið fyrir aftur.

Hv. þm. talaði einnig um ábyrgðarmenn. Við í viðskrn. höfum brugðist við í sambandi við það mál með því að undirrita samkomulag sem m.a. Neytendasamtökin taka þátt í. Samkvæmt því fá einstaklingar sem eru ábyrgðarmenn alltaf einu sinni á ári skrá yfir það fyrir hverju þeir eru ábyrgir, það er eitt atriðið. Eins má segja að samkvæmt frv. sem hv. þm. flutti ásamt fleiri félögum sínum hefðum við verið að gera þeim óleik, að mínu mati, sem eiga ekki miklar eignir. Þeir hefðu í raun ekki átt auðvelt með að fá lán hjá lánastofnun.

Ég ætla ekki að hafa sérstaka skoðun á aðkeyptri ráðgjafarþjónustu. Ég tel tæpast ástæðu til þess. Þess vegna erum við með samráðsnefndina, hún metur slík mál og, eins og ég sagði áðan, greiðir markaðurinn kostnaðinn við Fjármálaeftirlitið.

Í sambandi við þá ræðu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti hérna er mér mjög kærkomið að koma inn á þau atriði. Hann er alveg ótrúlega ósanngjarn í málflutningi sínum. Þar að auki er einhver tónn í umræðunni sem hlýtur að segja að hv. þm. á eitthvað erfitt með að halda stillingu.

Þetta ferli er allt uppi á borðinu. Eftir að ég kom í þetta ráðuneyti hófst það með því að við óskuðum eftir eða reyndum að fá kjölfestufjárfesti erlendis frá og störfuðum með ráðgjafarfyrirtækinu HSBC í London að því. Þetta var fyrir u.þ.b. ári og bar ekki árangur. Ég hef aldrei sagt að það ætti að selja í dreifðri eignaraðild vegna þess að ég veit að það stenst ekki EES-samninginn. Við þurfum ekkert að ræða það að brjóta hann, að mínu mati, enda held ég að meira að segja vinstri grænir séu farnir að tala þannig að EES-samningurinn skipti okkur máli og sé okkur mikilvægur. Þetta er aðalatriði málsins.

Þegar auglýst hafði verið gáfu fimm aðilar sig fram. Ég endurtek að það var auglýst, það var opið fyrir alla þá sem höfðu áhuga á að kaupa í banka. Ef hv. þm. veit um einhverja samstæðu eða einhverja grúppu sem vildi kaupa bankann, því í ósköpunum gaf hún sig þá ekki fram? Það var rætt við þá sem gáfu sig fram og uppfylltu ákveðin skilyrði. Niðurstaðan varð sú að Landsbankinn var seldur Samson sem var valinn eftir að HSBC hafði hjálpað okkur við að velja aðila. Síðan var S-hópurinn valinn eftir að HSBC hafði hjálpað okkur í ráðherranefndinni við að velja aðila til viðræðna. Samningar náðust við báða þessa aðila þótt ekki hafi verið gengið frá þeim endanlega enda, eins og ég hef látið koma hér fram, á Fjármálaeftirlitið eftir að yfirfara þessa aðila. Það er ekki hægt að skrifa undir meðan það hefur ekki verið gert, eins og hv. þm. hlýtur að skilja. Hann talar um að við séum að gefa frá okkur hluti en við erum að selja á yfirverði. Við græðum milljarð umfram það að selja á markaði.