Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:19:26 (1606)

2002-11-19 16:19:26# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru engir nema Vinstri grænir og reyndar Frjálslyndi flokkurinn sem halda því fram að þarna hafi verið illa staðið að verki. Við erum að selja á 4,81. Daginn áður voru bréf í Búnaðarbankanum skráð á 4,70. Þetta er gott verð og það er alla vega ekki hægt að gagnrýna verðið. En það sem hv. þm. getur náttúrlega gagnrýnt er að í þessum hópi skuli vera aðilar sem tengjast Samvinnuhreyfingunni. (ÖJ: Það er a.m.k. framsóknarmaður þarna.) Það er náttúrlega mjög slæmt ef hugsast gæti að þarna væri framsóknarmaður á ferð. Auðvitað hefði hv. þm. verið miklu ánægðari með það ef þetta hefðu verið eintómir sjálfstæðismenn, ég geri mér grein fyrir því, en ekki hefðu þetta getað verið vinstri grænir vegna þess að þeir koma ekki nálægt viðskiptalífinu. Ég bið bara hv. þm. að nefna mér það fyrirtæki sem vill gefa sig út fyrir að styðja vinstri græna. Það væri fróðlegt að heyra af því.

Málið er að þarna er staðið eðlilega að máli. Það fást 25 milljarðar inn í ríkissjóð, fjármagn sem við erum að losa og getum nýtt til skynsamlegra hluta. Við getum nýtt það til samgöngubóta, til byggðamála, upplýsingatæknimála og guð má vita hvað. Við losum þannig um gífurlegt fjármagn en hins vegar gefum við einstaklingum, einkaframtakinu, tækifæri til þess að reka þessa banka eins og allar aðrar þjóðir gera. Meira að segja fyrrverandi kommúnistaþjóðir eru á þessari leið en hv. þm. að sjálfsögðu ekki.