Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:21:06 (1607)

2002-11-19 16:21:06# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Jæja, herra forseti, nú fengum við það alveg grímulaust. Það er ekkert fyrirtæki, segir hæstv. ráðherra, sem er vinstri grænt, sem gefur sig út sem fyrirtæki vinstri grænna. Svona hugsar Framsfl.: Okkar fyrirtæki, okkar menn. Þetta er hugsunarhátturinn eins og hann kom hér grímulaust fram. (GAK: Þeir sem borga.) Þeir sem borga, borga í flokkssjóðina. Það eru þessir aðilar sem Framsfl. hefur slegið eignarhaldi sínu á sem eiga að fá hlut þjóðarinnar í Búnaðarbankanum. Svo einfalt er þetta mál.

Þegar talað er um 25 milljarðana sem eru að koma inn í ríkissjóð, við eigum nú eftir að sjá með hvaða hætti þeir koma, er ég að vekja athygli á því að á þessu ári einu, bara á þessu ári, er hreinn gróði af Búnaðarbankanum einum 25 hundruð milljónir. Arðurinn, ef hann hefði verið greiddur í ríkissjóð á þessu ári, væri hálfur milljarður króna. Það eru þessar mjólkurkýr sem Framsfl. er að afhenda vildarvinum sínum. Hér var því lýst alveg opinskátt hvað væri að gerast.