Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:09:09 (1620)

2002-11-19 17:09:09# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:09]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisskilyrði atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Þessari umræðu var frestað fyrir nokkuð löngu síðan og hafði þá staðið um nokkurt skeið og margt áhugavert komið fram í umræðunni, m.a. í þessu máli. Það hefur m.a. verið bent á að nota mætti skattkerfið til að stuðla að jöfnun lífskjara á landsbyggðinni. Það er auðvitað þekkt aðferð hjá öðrum þjóðum, að nota skattkerfið.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa fylgiskjal III. sem er stefnumörkun Sambands ísl. sveitarfélaga í byggðamálum en þar segir, með leyfi forseta:

,,62. fundur fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga leggur til að unnið verði að framgangi byggðamála með það að markmiði að búsetuskilyrði í landinu verði sem fjölbreytilegust og standist á hverjum tíma samkeppni um fólk við nálæg lönd og að byggð dreifist sem víðast um landið. Í samræmi við þá stefnumörkun samþykkir fundurinn eftirfarandi tillögur og greinargerð um byggðamál:

Í 12. lið þessarar samþykktar segir:

Ýmsar þjóðir hafa beitt þeirri aðferð að lækka skatta í dreifðum byggðum og á jaðarsvæðum í þeim tilgangi að draga úr fólksflutningum frá þeim til stærri borga. Hér gæti verið um að ræða ýmsa skatta ríkisins, svo sem tekjuskatt, eignarskatt og þungaskatt, sem hefur t.d. áhrif á vöruverð og þjónustu, sem kemur niður á atvinnurekstri og einstaklingum. Endurgreiðslu námslána er jafnframt rétt að taka til athugunar í sama tilgangi. Eðlilegt væri að ríkið hefði frumkvæði að því, í samráði við sveitarfélögin, að láta kanna og leggja fram tillögur um hvernig unnt væri að beita skattkerfi ríkisins til að jafna aðstöðu fólks í þéttbýli og dreifbýli og draga úr fólksflutningum úr dreifbýli. Við þá athugun verði kannað hvort og hvernig slíkum aðgerðum hefur verið beitt í nálægum löndum, t.d. ívilnunum í skattamálum til fyrirtækja sem flytjast á svæði sem eiga í vök að verjast vegna brottflutnings íbúa.``

Ég tel að þessi samþykkt Sambands ísl. sveitarfélaga sé afar merkileg. Raunar eru nokkur nýmæli hjá samtökunum að taka málið upp með þessum hætti og benda á að ekkert sé óeðlilegt við að nota skattkerfið í þeim tilgangi að stuðla að þróun í byggðamálum. Núverandi útfærsla á skattkerfinu stuðlar vissulega að misjafnri stöðu út um landið og það hefur greinilega verið dregið fram fyrr í þessari umræðu. Fjallað hefur verið um flutningskostnað, útfærsluna á þungaskattinum. Það kemur m.a. fram í fskj. IV með þessari till. til þál. hvernig mismunandi krónutala er greidd fyrir flutning kílós af vöru eftir því hvert á landið er flutt. Það er mjög skilmerkilega gerð grein fyrir því með gjaldskrá flutningaþjónustu Flytjanda.

Það er dýrast að flytja vörur til þeirra svæða sem lengst liggja frá höfuðborgarsvæðinu eða eru með erfiðustu vegina. Þangað er flutningurinn dýrastur, samanber Vestfirði, Norðausturland og Austfirði. Skattkerfið íþyngir þannig íbúum landsbyggðarinnar og þess vegna vil ég spyrja hæstv. viðsk.- og iðnrh., sem byggðamálin heyra undir, hvort sú samþykkt sem samtök sveitarfélaganna samþykktu og ég las upp áðan, verði tekin til greina. Þar er því m.a. beint til ríkisstjórnarinnar að sett verði af stað vinna í að skoða hvernig nota megi tekjuskatt, eignarskatt, þungaskatt og endurgreiðslu námslána til að stuðla að jafnvægi í byggð landins og helst að snúa byggðaþróunini við. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað hafi verið unnið í þessum málum eða hvort einhver vinna sé farin í gang við að skoða hvernig nota megi skattkerfið til að hafa áhrif á byggðaþróun.

Auðvitað hafa fjöldamörg önnur atriði áhrif á byggðaþróun í landinu, t.d. atvinnustefnan yfirleitt, hvort sem er í landbúnaði eða sjávarútvegi. Það er umræða sem hægt væri að eyða löngum tíma í að fara í gegnum en verður ekki gert á þeim tíma sem ég hef til umráða. Það er alveg ljóst að staða byggðanna hefur veikst mjög við útfærsluna á okkar sérstaka framseljanlega kvótakerfi á Íslandi. Það mætti hafa veruleg áhrif á þróun og búsetu fólks í mörgum sjávarútvegsbyggðum með annarri útfærslu. Einkum held ég að útfærslan varðandi strandveiðiflotann, smábátaflotann og dagróðraflotann þurfi að vera öðruvísi en er í dag eigi á annað borð að viðhalda byggð í landinu.

Vissulega þarf að taka á fjöldamörgum atriðum en ég vil sérstaklega endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Með hvaða hætti hyggst ráðherrann stuðla að því að sú skynsamlega tillaga sem Samband ísl. sveitarfélaga samþykkti í þessum málum verði tekin til úrvinnslu? Ef úrvinnslan er hafin, hvað liggur þá fyrir í þeim efnum? Hvernig hyggst ráðherrann yfirleitt skoða tillöguna sem ég hef gert að umræðuefni? Ég tel hana mjög markverða og margt í henni sem taka þyrfti tillit til.

Ég vil að lokum víkja í örstuttu máli að auknum kostnaði fyrirtækja á landsbyggðinni sem þurfa aðföng, m.a. gegnum stærsta markaðssvæði landsins við Faxaflóann. Þar er auðvitað ekki saman að jafna fyrirtækjum sem starfa úti á landsbyggðinni, sem greiða hærri flutningsgjöld vegna aðfanga og síðan fyrir að flytja vöruna aftur á svæðið, og fyrirtækjum sem hér starfa.