Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:21:30 (1622)

2002-11-19 17:21:30# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:21]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mig langar að segja nokkur orð í tengslum við þá þáltill. sem hér er til umfjöllunar. Eins og hv. þm. vita og þekkja er tekið á þessum málum og þessum þáttum í byggðaáætlun sem samþykkt var á hv. Alþingi í vor.

Í fyrsta lagi í sambandi við búsetuskilyrði fólks í landinu og einnig starfsskilyrði atvinnuveganna var ákveðið að athuga sérstaklega þessa þætti, og sú vinna er þegar langt komin. Hagfræðideild Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnun Háskólans á Akureyri voru fengnar til að vinna að þessum verkefnum. Byrjað var á verkinu í sumar og áætlað er að skýrsla komi út um næstu áramót.

Það má taka fram að sérstaklega er verið að skoða vöruverð og flutningskostnað í þessu sambandi og leitað hefur verið eftir upplýsingum um allt land. Til þess að skýra hvers vegna farið er í þessa athugun á búsetuskilyrðum fólks segir í byggðaáætluninni, með leyfi forseta:

,,Að fá fram vandaða rannsókn á því hver raunverulegur mismunur sé á búsetuskilyrðum á landinu. Jafnframt er mikilvægt að rannsökuð verði áhrif þeirra opinberu aðgerða sem þegar hefur verið beitt, m.a. til niðurgreiðslu á húshitun, námskostnaði, jöfnun raforkuverðs og framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þá er mikilvægt að kanna möguleika á skattalegum aðgerðum, svo sem að kostnaður við atvinnusókn um lengri veg, t.d. meira en 20 km, verði frádráttarbær frá skatti.``

Þetta er í byggðaáætluninni sem samþykkt var í vor en flm. þessarar tillögu studdu ekki þá tillögu.

Síðan segir í sambandi við starfsskilyrði atvinnuveganna:

,,Að fá niðurstöðu um það hver sé raunverulegur mismunur á starfsskilyrðum fyrirtækja og sjálfstætt starfandi atvinnurekenda eftir landshlutum, svo sem um áhrif flutningskostnaðar og reglna um þungaskatt og áhrif tryggingagjalds og virðisaukaskatts. Jafnframt verði rannsökuð áhrif þeirra opinberu aðgerða sem þegar hefur verið beitt í þessu skyni.``

Þessi vinna er sem sagt langt komin og ég er mjög ánægð með það. Ég vil samt bæta því við að í heilt ár hefur starfað nefnd undir forustu samgrh. sem fer yfir flutningskostnað almennt í landinu, og sú vinna sem þar fór fram er að sjálfsögðu til þess að flýta fyrir vinnunni sem tengist byggðaáætlun. Allt er þetta í sjálfu sér sami grauturinn í sömu skálinni. En ég hef ekki farið í launkofa með það að mér finnst flutningskostnaður vera eitt af stóru vandamálunum sem þarf að taka á fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni og líka fyrir íbúa landsbyggðarinnar þar sem þetta kemur að sjálfsögðu fram í vöruverði og er þeim þannig í óhag.

Af því að hv. þm. sem hér talaði áðan minntist á skattkerfið og samþykktir sveitarfélaga í sambandi við það að beita skattkerfinu til ívilnunar fyrir landsbyggðina vil ég segja að það hefur ekki verið stefna fjmrh. að gera það. Ég tek undir með honum hvað það varðar að það væri mjög flókið mál í framkvæmt. Af því að þungaskatturinn var nefndur í þessu sambandi er það mál sem lengi hefur verið til umfjöllunar. Þingið tók á því fyrir nokkrum árum en engu að síður er það fjarri því að vera ásættanlegt og því hefur fjmrh. unnið áfram að tillögugerð í sambandi við þungaskattinn. Hvort og þá hvernig tekið verður á því máli í vetur skal ég ekkert um segja en auðvitað tengist það líka flutningskostnaði. Þarna erum við að tala um mikilvægt mál og ég veit að það er hugur þeirra sem flytja þessa tillögu að taka á málinu. Ég vil þá að það komi jafnframt fram að það er þegar komið í vinnslu og komið allnokkuð áleiðis.