Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:26:35 (1623)

2002-11-19 17:26:35# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:26]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. iðn.- og viðskrh., ráðherra byggðamála, fyrir að vera viðstödd lokaumræðu eða framhaldsumræðu um það þingmál sem við erum hér að ræða. Ég mun koma að því betur í seinni ræðu minni á eftir.

Hæstv. ráðherra tók sem dæmi að flutningskostnaðurinn væri stóra vandamálið í rekstrar- og samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni andspænis höfuðborgarsvæðinu og sem líka sér stað í vöruverðinu.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að hér kemur ráðherra nokkuð borubrött og segir: Málið er allt í gangi. Ég spyr: Hvers vegna hefur ekkert verið gert fyrr? Breyting sem gerð var á þungaskatti hefur haft þær afleiðingar í för með sér að þungaskattur á flutningabíl með tengivagn sem ekur 100 þús. km á ári hefur hækkað um 40% við þær breytingar sem núv. hæstv. ríkisstjórn lét gera á þungaskattskerfinu á sínum tíma. Hvert fór þessi þungaskattshækkun? Auðvitað þráðbeint út í verðlagið. Það eru líka staðreyndir sem ég kem betur að á eftir að mjög líklega er helmingur af tekjum flutningsfyrirtækja beinir og óbeinir skattar til ríkisins. Þegar flutningabíll keyrir norður í land með flutningstekjur upp á kannski 200 þús. kr. í farminum renna tæplega 100 þús. kr. til ríkisins. Þess vegna spyr ég hæstv. iðn.- og viðskrh., ráðherra byggðamála, núna: Hvers vegna í ósköpunum hefur ekkert verið gert fyrr í þessu máli úr því að ráðherra viðurkennir að þetta sé stærsta vandamálið í byggðamálum í dag, þ.e. þungaskatturinn og flutningskostnaðurinn? Hér hef ég tekið dæmi af þungaskattinum sem er verk núv. ríkisstjórnarflokka. Hvers vegna hefur ekkert verið gert fyrr?