Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:45:58 (1632)

2002-11-19 17:45:58# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:45]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma með stutt andsvar við ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals. Ég ítreka þakkir mínar til hans fyrir að hafa tekið þátt í þessari umræðu og lagt lóð sitt á vogarskálina þó að ég sé honum ekki sammála. Hv. þm. telur að eini möguleikinn á að lækka flutningskostnað til landsbyggðarinnar, sem er eins og fram hefur komið í ræðu hæstv. iðn.- og viðskrh. eitt mesta vandamálið í sambandi við fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni og vöruverð, sé að stytta vegalengdir, að aðalatriðið sé að leggja veg yfir hálendið til Eyjafjarðar.

Herra forseti. Það hefur áður komið fram að hv. þm. Halldór Blöndal hefur sagt að flutningskostnaður hafi lækkað í landinu. Ég mótmæli því. Hann hefur ekki lækkað. Þetta er sama vitleysan og kom fram hjá hæstv. forsrh. í stefnuræðu hans á hinu háa Alþingi, að flutningskostnaður hefði lækkað á undanförnum árum. Ég mótmæli þessu og bið hv. þm. að sýna okkur fram á hvernig flutningskostnaður hefur lækkað. Hið rétta í þessu er að hann hefur stórhækkað. Nýlega bættist við 7% hækkun á flutningsgjöld með flutningabílum og auk þess 4% þjónustugjald. Það er ekki langt síðan þetta gerðist.

Hafi hv. þm. lesið þingmálið hefur hann séð hver flutningskostnaðurinn er, hvað það kostar að flytja hvert kíló, t.d. á norðausturhorn landsins.

Ég segi stutt og laggott, herra forseti: Ástandið þolir ekki þá bið að gera þær ráðstafanir sem hægt er að gera til að lækka flutningskostnað, bíða eftir því að nýir vegir verði lagðir eða vegalengdir styttar. Það gengur ekki. Þetta er aðgerð, eins og ég held að hafi komið fram í ræðu hæstv. iðn.- og viðskrh., sem þolir ekki nokkra bið. Það eru til aðrar leiðir til að lækka flutningsgjald, herra forseti, en að leggja nýja vegi þó að það sé gott mál.