Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:50:10 (1634)

2002-11-19 17:50:10# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:50]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ef hæstv. þáverandi ríkisstjórn, sem ég hygg að hv. þm. Halldór Blöndal hafi setið í, hefði haft minnsta áhuga á að taka á því máli hefði verið hægt að breyta þungaskattslögum þannig að flutningskostnaður með flutningabifreiðum væri niðurgreiddur eða hefði ekki á sér svo háa skatta sem hv. þm. hefur tekið þátt í að leggja á flutningastarfsemi í landinu. Það er grundvallaratriði. Það er gott til þess að vita að hv. þm., 1. þm. Norðurl. e., telur að flutningsgjöld hafi lækkað milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar. Ég veit ekki í hvaða fílabeinsturni hv. þm. situr og veit ekki við hvaða rekstraraðila atvinnufyrirtækja í hinu nýja Norðausturkjördæmi hann hefur rætt ef hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að flutningsgjöld hafi lækkað. Þvílík öfugmæli.

Aðalumkvörtunarefni þeirra sem talað er við, hvort heldur eru forsvarsmenn atvinnufyrirtækja eða íbúar á landsbyggðinni sem þurfa að lifa við þetta himinháa vöruverð, eins og kemur fram í þáltill. minni, kvarta yfir flutningskostnaði. Svo kemur hv. þm. Halldór Blöndal, 1. þm. Norðurl. e., og ætlar að halda því fram að flutningsgjöld hafi lækkað. Það er sannarlega rétt að flutningstækni lækkar kannski flutningskostnað. Ég veit ekki hvar flutningskostnaðurinn væri í dag ef engin tækniþróun hefði átt sér stað. Það er alveg hárrétt. En útúrsnúningar hv. þm. eru hans í þessu máli.

Ég ítreka, herra forseti, að það er ljóst að þungaskatturinn hefur stórhækkað undanfarið. Þungaskattshækkunin hefur farið þráðbeint út í verðlag flutningafyrirtækja og endað sem hærra vöruverð fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Það er líka ljóst, herra forseti, og ótal dæmi um það, að skattar af flutningastarfsemi eru um helmingur af tekjum þeirra, skattar til ríkisins.

Herra forseti. Ungir sjálfstæðismenn sögðu einu sinni: Báknið burt, niður með skattana. Við heyrum unga sjálfstæðismenn í Reykjavík tala um skattalækkun. Hv. þm. Halldór Blöndal mætti ræða um skattalækkun af flutningsstarfsemi.