Sjálfbær atvinnustefna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 18:10:35 (1637)

2002-11-19 18:10:35# 128. lþ. 32.16 fundur 33. mál: #A sjálfbær atvinnustefna# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[18:10]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Till. til þál. um sjálfbæra atvinnustefnu er hér flutt í þriðja sinn. Hún er hluti af stefnumörkun og stefnuyfirlýsingu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Tillagan felur það í sér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að móta, í samráði við sveitarfélög, samtök atvinnurekenda og launafólks og opinber ráð og rannsóknastofnanir rammaáætlun um sjálfbæra atvinnuþróun á Íslandi með hliðsjón af Dagskrá 21 og Staðardagskrá 21 og vinna að framgangi hennar stig af stigi.

Slík stefnumótun miði meðal annars að því:

að atvinnuvegir landsmanna lúti lögmálum sjálfbærrar þróunar og miðist við hrein framleiðsluferli og sjálfbæra nýtingu auðlinda,

að skapa nýjum atvinnugreinum á sviði þekkingar og tækni í umhverfismálum hagstæð vaxtarskilyrði og efla þannig atvinnulíf og auka fjölbreytni þess,

að beislun innlendra orkulinda hafi að markmiði að vistvæn orka komi í stað innflutts jarðefnaeldsneytis samhliða því sem komið verði í veg fyrir orkusóun,

að fylgt verði alþjóðlegum skuldbindingum um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina,

að móta umhverfisstefnu með ,,grænu bókhaldi`` í stofnunum og fyrirtækjum og þróa og birta ,,græna þjóðhagsreikninga``,

að taka upp ,,græna skatta`` stig af stigi og draga í staðinn úr núverandi skattheimtu og leggja á umhverfisgjöld til að ýta undir sjálfbær framleiðsluferli og örva endurnýtingu,

að draga úr sorpmyndun með því að flokka og endurnýta sorp og lífrænan úrgang,

að tryggja að skipulag og landnotkun lúti langsæjum markmiðum um sjálfbæra landnýtingu, náttúruvernd og verndun menningar- og búsetuminja,

að stuðla að rannsóknum og menntun þannig að ætíð sé til haldgóð þekking aðgengileg fyrir almenning og vel menntað starfsfólk til að stuðla að sjálfbærri atvinnuþróun,

að styrkja byggðir landsins með fjölgun starfa og fjölbreyttari atvinnutækifærum á sviði umhverfis- og náttúruverndar.

Rammaáætlunin um sjálfbæra atvinnuþróun verði kynnt á Alþingi eigi síðar en á haustþingi 2004.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að lesa sjálfa tillögugreinina en tillögunni fylgir síðan greinargerð þar sem fjallað er um umhverfis- og náttúruvernd sem óaðskiljanlegan hluta farsællar samfélagsþróunar á þessari nýju öld og litið á hana sem skilyrði þess að mannkynið haldi velli. Umhverfis- og náttúruvernd mun einnig skipta sköpum í baráttunni fyrir því að viðunandi jöfnuður náist með einstaklingum og þjóðum. Og það er kannski ekki hvað síst þessi staðhæfing sem gerir það að verkum að þetta er hluti af inntaki stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem rekur pólitík sem gengur út frá vinstri gildum, gildum jafnaðar og umhverfisstefnu, og með því að beita sér fyrir umhverfisstefnu af þessu tagi teljum við okkur hafa afar trúverðuga stefnu fram að bjóða í atvinnumálum. Það er því harla ómaklegt, herra forseti, þegar Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hefur verið núið því um nasir hér í þessum sal, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að aldrei hafi komið neinar raunhæfar tillögur frá flokknum varðandi atvinnustefnu. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, herra forseti, er ég að tala fyrir þessari þáltill. í þriðja sinn og í greinargerð með henni er fjallað á ítarlegan hátt um þá þætti atvinnusköpunar sem við höfum í huga og liggur að baki þessum tillöguflutningi okkar.

Þar er fjallað um tækni, menntun, það að nauðsynlegt sé að ryðja braut nýjum starfsgreinum á sviði umhverfisfræða og það að fjölga menntunartækifærum í umhverfistækni og umhverfisstjórnun. Einnig teljum við að tengja beri þekkingariðnað þessum greinum og efla hann með samræmdum aðgerðum. Við tölum um að leggja þurfi sérstaka áherslu á hvers konar rannsóknarstarf og að það þurfi að sjá til þess að hluti opinberra fjárveitinga til rannsóknarstarfa verði merktur rannsóknum á sviði umhverfismála, svo sem umhverfistækni og umhverfisstjórnunar.

Herra forseti. Ég fullyrði að ríkisstjórn Íslands hefur ekki þessi sömu sjónarmið að leiðarljósi. Það sést best á málum þeim sem hér voru flutt í gær þar sem verið var að tala um nýskipan í opinberum stuðningi við rannsóknir, rannsóknastarfsemi og vísindi en þar kemur náttúrlega í ljós að rannsóknir sem ekki eru beint hagnýtar og ekki er hægt að heimfæra beina leið sem hagnýta fyrir atvinnulífið kæmu að öllum líkindum til með að eiga undir högg að sækja í hinu nýja kerfi.

[18:15]

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill sem sagt efla rannsóknir á sviði umhverfismála, umhverfistækni og umhverfisstjórnun sérstaklega. Við berum fyrir brjósti hugvísindi og félagsvísindi sem ekki eru ævinlega þau arðbærustu í beinhörðum peningum þegar skammt er skoðað. En til lengri tíma litið teljum við þetta vera fjárfestingu til framtíðar sem komi til með að skipta sköpum fyrir farsælt líf í þessu landi.

Herra forseti. II. kafli í greinargerðinni fjallar um orkumál. Þó þetta sé ekki orkumálastefna í sjálfu sér þá teljum við eðlilegt eða mikilvægt, þar sem við höfum talsverða atvinnu af því að vera orkunýtingarþjóð, að taka upp sjálfbæra orkustefnu sem við höfum flutt sem sérstakt mál. Ég boða það hér, herra forseti, að við komum trúlega til með að endurflytja hana á þessu þingi. En markmið með sjálfbærri orkustefnu er að endurnýjanlegir orkugjafar okkar leysi jarðefnaeldsneyti algerlega af hólmi og það verði dregið úr orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda. Við teljum að taka verði tillit til umhverfis- og náttúruverndar í áætlunum um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og að fresta beri öllum stóriðjuframkvæmdum uns lokið er gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Það er algert lykilatriði, herra forseti, í þessum atvinnumálum okkar að við séum ekki að sóa þessum dýrmætu náttúruauðlindum okkar á altari stóriðjunnar án þess að skoða hlutina af víðsýni og með langtímasjónarmið í huga. Óðagotið og flýtirinn sem hefur verið á því máli öllu saman hjá ríkisstjórninni er ekki til þess fallið að auka traust fólks á störfum þessarar ríkisstjórnar. Það er til skammar hvernig ríkisstjórnin hefur í raun gjaldfellt sína eigin rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, því um leið og hún er sett á sem einhvers konar dúsa upp í náttúruverndarsinna að því er virðist þá er vaðið áfram í blindni með stóriðjustefnuna og hoggið í þá staði á hálendi Íslands sem samkvæmt þeirri niðurstöðu sem rammaáætlunin og verkefnisstjórn hennar hafa verið að komast að núna á síðustu missirum eru viðkvæmustu staðirnir og dýrmætustu út frá náttúruverndarsjónarmiðum.

Herra forseti. Við teljum að taka þurfi á í rannsóknum á vistvænum orkugjöfum á borð við vindorku, sólarorku, virkjun sjávarfallanna eða úthafsstraumanna og gerum grein fyrir því í þessum kafla greinargerðarinnar hvernig við sjáum það vera atvinnuskapandi.

Endurvinnsla og endurnýting er síðan einn sérstakur kafli í greinargerðinni. Það má svo sem segja að hæstv. ríkisstjórn sé komin með mál af þessum sama toga hingað fyrir Alþingi, þ.e. frv. hæstv. umhvrh. um meðhöndlun úrgangs. En það frv. er byggt á svokallaðri úrgangstilskipun eða urðunartilskipun Evrópusambandsins. Við höfðum svo sem þau sjónarmið í huga þegar við sömdum þennan kafla greinargerðarinnar um endurvinnslu og endurnýtingu. Við teljum algert lykil\-atriði að samfélagið allt taki höndum saman með stjórnvöld í broddi fylkingar og dragi úr sorpmyndun og fari að flokka sorp í auknum mæli, jafnt frá heimilum og atvinnustarfsemi, og ekki hvað síst auki alla endurnýtingu sem mögulegt er að viðhafa hér á okkar fagra landi, því auðvitað er ekki gott til afspurnar, þ.e. ekki umhverfisvænt til afspurnar að við séum að flytja sorp yfir úthöfin með tilheyrandi mengun. Þó það gæti fyrst í stað kostað einhvern aur þá er auðvitað miklu vænlegra að búa til hringrás í okkar eigin landi þar sem við mundum sjá til þess að plast t.d. yrði endurnýtt, steypt upp á nýtt og notað í alls kyns nytjahluti. Gúmmí mætti endurvinna og nælon og fleiri slík efni sem brotna annars hægt niður í náttúrunni.

Herra forseti. Nauðsynlegt er að endurskipuleggja allt fráveitukerfi landsmanna. Þá viljum við leggja áherslu á vistvæna hreinsiferla. Síðan ætti að endurnýta allan lífrænan úrgang til jarðgerðar og framleiðslu á lífrænum áburði og auka verðmætasköpun úr hvers kyns öðrum endurunnum úrgangi.

Herra forseti. Ég vil meina að í örfoka landi, landi þar sem gróðureyðing er viðlíka og á Íslandi, hljótum við að hafa fulla þörf fyrir jarðgerð, fyrir moltuframleiðslu, í öllu samfélagi okkar, hvar sem er, til sjávar og sveita, í borgum og í þéttbýli jafnt sem dreifbýli. Ég held að ef vilji er fyrir hendi hjá stjórnvöldum þá hljóti að vera hér atvinnutækifæri jafnframt því sem við værum að styrkja gróður og jarðveg landsins og þar með náttúruvernd í þessari vin sem við eigum hér norður í ballarhafi.

Sjávarútvegurinn heyrir líka undir þessa tillögu okkar um sjálfbæra atvinnustefnu. Þar höfum við talið að leggja þurfi áherslu á notkun vistvænna veiðarfæra og umhverfisvænna vinnsluaðferða, það þurfi að vinna markvisst að því að draga úr orkunotkun á aflaeiningu og hvetja til varkárni í umgengni við auðlindina og allt lífríki sjávar. Það er líka nauðsynlegt að marka stefnu sem miðar við að fullvinna afla og finna leiðir til að nýta allan lífrænan úrgang sem fellur til í sjávarútvegi, jafnt í landvinnslu sem á hafi úti.

Í því sambandi er gaman, herra forseti, að benda á þingmál, þ.e. fyrirspurn og svar sem birtist seint á síðasta löggjafarþingi. Þar bar hv. þm. Kristján Pálsson fram þá fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. hvort ekki mætti huga betur að nýtingu afla fullvinnsluskipa og annarra skipa sem vinna aflann um borð.

Herra forseti. Ég vísa í máli mínu til afar merkilegs svars hæstv. sjútvrh. á þskj. 732 í 411. máli frá síðasta löggjafarþingi. Þar kemur auðvitað fram að gífurleg verðmæti eru fólgin í þeim úrgangi sem fullvinnsluskip og reyndar önnur fiskiskip nýta ekki í dag og kasta jafnvel í sjóinn. Jafnvel er talið að verðmætin geti verið svo mikil að milljörðum skipti. Það kemur fram í þessu þingskjali að brottkast hafi lengi verið vandamál og að útgerðin hafi borið því við að ekki sé fjárhagslegur hagur af því að færa undirmálsfisk og úrgang að landi og því fari hvort tveggja allt of oft í sjóinn. Svo segir í þessu þingskjali sem ég var að minnast á áðan frá Kristjáni Pálssyni og hæstv. sjútvrh. að fullvinnsluskip hendi árlega í sjóinn um 60.000 tonnum. Það er þá úrgangur sem mætti vinna úr afurðir að verðmæti 1,5 milljarðar, þ.e. 1.500 millj. kr.

Herra forseti. Auðvitað verður að leita leiða til þess að nýta allan þann afla sem kemur úr sjó og allt sem með honum kemur, hætta að búa til þennan úrgang og tryggja þannig breytta umgengni við hafið.

Herra forseti. Síðan má nefna kafla í greinargerðinni um ferðaþjónustu sem er atvinnugrein sem færir okkur gífurlega miklar tekjur í þjóðarbúið. Sú atvinnugrein er í sem örustum vexti á Íslandi. Hún skipar annað sæti þeirra atvinnugreina sem skapa hvað mestar þjóðartekjur hér á landi. Hún situr þar í öðru sæti á eftir sjávarútveginum. Það er skoðun okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að ferðaþjónusta og náttúruvernd eigi vel saman og það eigi að flétta saman ferðaþjónustu og náttúruvernd, enda er náttúran sjálf sú auðlind sem ferðaþjónustan byggist á.

Það er afar mikilvægt, herra forseti, að efla þessa ungu atvinnugrein, ferðaþjónustuna. Það verður ekki hvað síst gert með því að efla náttúruvernd. Sannleikurinn er nú sá, herra forseti, að með þeirri stóriðjustefnu sem keyrð er hér af hæstv. ríkisstjórn, má segja að verið sé að skaða ferðaþjónustuna. Náttúruverndin er fyrir borð borin. Hún er orðin einskis virði í þessu landi. Það má ráðast á hvað sem er. Sannleikurinn er sá að með þeirri stefnu sem ríkisstjórnin rekur er verið að höggva að rótum ferðaþjónustunnar sem nýtir náttúruna sem sína auðlind.

Það þarf að gera sérstakt atvinnuátak í uppbyggingu þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða. Það er atvinnuskapandi því landverðir og leiðsögumenn hafa atvinnu af því að sinna slíkum svæðum. Það verður að styrkja stöðu þeirra eins og nauðsynlegt er. Ég minni á að þessir aðilar hafa gífurlega veigamiklu fræðsluhlutverki að gegna hver í sínu samfélagi og það er að mínu mati vannýting á landvörðum og þjóðgarðsvörðum að þeir skuli ekki hafa fleiri verkefni á sviði náttúruverndar eða fræðslu yfir vetrartímann.

Þar sem tími minn er brátt á þrotum, herra forseti, vil ég aðeins nefna að í greinargerð með þessari tillögu er fjallað sérstaklega um landbúnað, gróðurvernd, landgræðslu og skógrækt. Þá er sérstakur kafli um menningu og listir, sérstakur kafli um iðnað, vistvæn samfélög, meginreglur umhverfisréttar, alþjóðlegar skuldbindingar okkar og fleira.

Niðurlagsorð greinargerðarinnar eru tilvitnun til orða John C. Sawhill, fyrrverandi framkvæmdastjóra Nature Conservancy í Bandaríkjunum. Þau eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Þegar fram líða stundir verður samfélag okkar ekki bara dæmt af þeim mannvirkjum sem okkur tókst að reisa, heldur öllu fremur af þeim mikilvægu náttúrufyrirbærum sem við neituðum að spilla.``