Sparisjóðir og bankaþjónusta

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 13:41:10 (1640)

2002-11-20 13:41:10# 128. lþ. 34.1 fundur 291. mál: #A sparisjóðir og bankaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[13:41]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrstu fyrirspurn hv. þm. sem er á þskj. 313 vil ég segja þetta: Landsbanki og Búnaðarbanki voru gerðir að hlutafélögum árið 1998. Nýir eigendur komu að rekstrinum með ríkinu sama ár og bankarnir voru jafnframt skráðir í kauphöll. Þetta var meginbreyting á rekstrarformi bankanna. Með breytingunni var klippt á afskipti ráðherra af daglegum rekstri bankanna og bankarnir lúta aga markaðarins. Þessi breyting var í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að ríkið eigi almennt ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðlilegum hætti. Er þetta jafnframt í samræmi við viðtekin sjónarmið í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

Ríkisviðskiptabankarnir áttu rætur sínar að rekja til þess tíma þegar takmarkað framboð var á fjármagni og því talið nauðsynlegt að ríkið hlutaðist til um þessa starfsemi og tæki jafnframt áhættuna af henni. Nú er sú staða ekki lengur fyrir hendi. Spurning fyrirspyrjanda ber ekki vott um djúpan skilning á gangverki atvinnulífsins í markaðshagkerfi.

Með aðhaldi og aðild markaðarins er tryggð eins góð þjónusta á eins góðum kjörum og möguleiki er á. Það er hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að bankakerfinu verði skapaðar aðstæður til að dafna til hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki í þéttbýli og dreifbýli.

Önnur spurning hv. þm. var þessi, með leyfi forseta: ,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að skylda Búnaðarbankann eða Landsbankann til að hafa skilgreint net útibúa vítt og breitt um landið með tiltekinni lágmarksþjónustu?``

Nei, það mun ég ekki gera. Það væri fullkomlega óeðlilegt að skylda tvö fyrirtæki á markaði umfram önnur til að sinna tiltekinni þjónustu. Við Íslendingar búum við tæknilega mjög gott bankakerfi og bankaþjónusta hefur verið að breytast mjög með tilkomu netsins. Ekki er ósennilegt að bankaútibúum fækki á næstu árum. Þróunin hefur verið í þá átt á síðustu árum, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar með er ekki sagt að þjónusta bankanna versni heldur verður hún í öðru formi og væntanlega einnig á betra verði. Ástæða er til að nefna að þessi þróun mun verða óháð því hvort ríkið eigi hlut í bönkum.

Þriðja spurningin var, með leyfi forseta: ,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að láta kanna réttarstöðu þeirra sparisjóða sem fólu útibúum ríkisbankanna verkefni sín og eignir en sjá nú á bak þeim bótalaust við sölu ríkisbankanna?``

Svarið er eftirfarandi: Þetta hefur þegar verið gert. Hlutafélagabankarnir, Landsbanki og Búnaðarbanki, tóku við öllum skuldbindingum gömlu ríkisviðskiptabankanna. 19. gr. laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands á að taka af allan vafa í þeim efnum, en 2. mgr. þeirrar greinar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Landsbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og skuldbindingum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands vegna yfirtöku ríkisviðskiptabankanna á sparisjóðum.``

Þetta þýðir að skuldbindingar og réttindi bankanna af samningum við sparisjóði flytjast yfir til hlutafélagabankanna og að formbreytingin hefur ekki áhrif á framkvæmd þeirra.

Fjórða spurning, með leyfi forseta: ,,Mun ráðherra styðja baráttu þeirra sem nú vilja treysta aftur bankaþjónustu í heimabyggð og endurheimta sparisjóði sína ásamt þeim eignum og fjármálaumsvifum sem heimamenn fólu bankaútibúi í trausti þess að bankarnir yrðu áfram þjóðareign?``

Svarið er eftirfarandi: Ég mun ekki þurfa að styðja baráttu þeirra með einum eða öðrum hætti. Alþingi hefur nú þegar tekið á þessu máli með fullnægjandi hætti og vísa ég þar í áðurnefnda 2. mgr. 19. gr. laga nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.