Sparisjóðir og bankaþjónusta

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 13:51:01 (1645)

2002-11-20 13:51:01# 128. lþ. 34.1 fundur 291. mál: #A sparisjóðir og bankaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu um leið og ég harma dapurlegar undirtektir hæstv. ráðherra. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra hefur lítinn skilning á þeim verkum sem þarna eru að gerast.

Ég vil vitna, herra forseti, til eins samnings, samnings sem Sparsjóður Dalasýslu gerði við Búnaðarbankann á sínum tíma þegar þeir voru sameinaðir. Í þann samning var sett skilyrði því í 10. gr. samningsins stendur, með leyfi forseta:

,,Ef útibú bankans verður lagt niður, skal það sameinast Sparisjóði Dalasýslu, ef það verður þá ósk forráðamanna sjóðsins og fer þá fram yfirtaka á starfsemi útibúsins, eignum þess og skuldum með svipuðum hætti og hér er gert af hálfu Búnaðarbankans.``

Þetta var ein veigamesta greinin í þeim samningi sem Sparisjóður Dalasýslu gerði við Búnaðarbankann á þeim tíma og hefur þessi krafa verið ítrekuð af þáverandi sparisjóðsstjóra og formanni bankaráðs Búnaðarbankans og alþingismanni og ráðherra, Friðjóni Þórðarsyni, sem gerði þessa samninga báðum höndum.

Mér finnst það dapurlegt, herra forseti, ef viðskrh. telur sig þess umkomna hér á Alþingi að segja að ekki þurfi að standa við gerða samninga, bankarnir hafi verið seldir og það sé bara bankans á markaðnum að ákveða það hvernig staðið er við það. Mér finnst þessi sýn hæstv. ráðherra dapurleg og sýna lítinn skilning (Gripið fram í.) á verkefnum úti um land. Og meira að segja hæstv. landbrh. sem hér talar fram í ætti frekar að beita afli sínu hér en vera að ganga um eins og leikari í sölum Alþingis og víðar.

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að unnið sé að því, þó svo það gerist ekki í tíð þessa hæstv. ráðherra, að þjónusta bankanna og bankaþjónusta úti um land verði tryggð.