Könnun á læsi fullorðinna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:29:35 (1660)

2002-11-20 14:29:35# 128. lþ. 34.4 fundur 362. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Mér var ljóst að þessi starfshópur hafði verið skipaður. Það er virðingarvert að skipa starfshóp en það er hins vegar verra að í rauninni er það að leggja niður Lestrarmiðstöðina það eina sem hæstv. ráðherra hefur sýnt í verki. Því miður er það ekki uppörvandi sem þegar hefur gerst í þessu máli.

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvernig þingmenn eiga að bregðast við og hvernig þingið á að bregðast við því þegar ráðherra gerir ekki það sem þingið felur honum að gera. Um þetta var þverpólitísk samstaða og menn voru nokkuð sammála um að til þess að örugglega yrði um aðgerðir að ræða og að til þeirra fengjust nauðsynlegir fjármunir þyrfti að staðreyna hinn íslenska veruleika.

Mér er það mjög vel kunnugt, eftir að hafa í tvígang flutt þessa tillögu og talað fyrir henni mjög víða, að þeir eru býsna margir sem trúa því ekki að það geti verið um svo víðtækt ólæsi að ræða meðal Íslendinga. Við erum jú bókaþjóð, við erum læs, og þannig er sjálfsmynd Íslendinga. Þess vegna er það líka enn þá erfiðara fyrir þá sem stríða við ólæsi að þurfa að horfast í augu við vanda sinn og þess vegna er það, herra forseti, að býsna stór hluti þessa hóps er ekki einu sinni á vinnumarkaði. Hann hefur flæmst af honum vegna síaukinna krafna hafi hann komist þangað yfirleitt. Staða þessa hóps er að mörgu leyti mjög sérstök og mjög erfið. Og það er kannski til marks um það hve lítill skilningurinn er að það er verið að auglýsa námskeið fyrir þetta fólk, 12 skipti á 25.000 kr., ef það vill koma og fá þjónustu til að bæta sér upp það sem skólakerfið ekki gat veitt því.

Herra forseti. Þetta sýnir grátlega lítinn skilning á stöðunni og ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að þessi könnun verði gerð. Ég held að við þurfum svo sannarlega á því að halda.