Könnun á læsi fullorðinna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:31:53 (1661)

2002-11-20 14:31:53# 128. lþ. 34.4 fundur 362. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég láta það koma skýrt fram að ráðist hefur verið í viðamikla athugun á því að minni tilhlutan hvernig lestrarröskun og lesblinda er greind hér á landi. Það kom fram í þeirri athugun að það er mjög misjafnlega að þessu staðið og íbúar landsins búa við mjög misjöfn kjör að þessu leyti. Hluti af þessari mismunun milli aðila var einmitt starfsemi Lestrarmiðstöðvarinnar sem stóð íbúum á höfuðborgarsvæðinu til boða en ekki annars staðar. Þetta verður tekið allt saman fyrir í heild og það var fullkomin ástæða til þess að fara yfir þetta mál frá upphafi til enda.

Ég vil einnig taka fram að sérfræðingarnir sem ráðuneytið leitaði til út af læsi fullorðinna töldu að þær upplýsingar sem koma fram í alþjóðlegum könnunum um þetta hafi gildi fyrir Ísland. Talið er að þær hafi gildi fyrir Ísland og að þessu leyti sé því ekki ástæða til þess að ráðast í yfirgripsmikla og dýra könnun til þess að kanna hvernig þessi mál standa hjá okkur. Vinnuhópurinn sem vann að þessu á vegum ráðuneytisins taldi sig geta byggt á þessum könnunum til að koma með tillögur um úrræði. Það er með öðrum orðum afstaða ráðuneytisins að brýnna sé að finna úrræði og grípa til aðgerða en að ráðast í könnun.

Að því er varðar Lestrarmiðstöðina þá var orðið tímabært að taka það mál til umfjöllunar. Þess vegna var ráðist í þessa almennu könnun á því hvaða úrræði mönnum stæði til boða og sú könnun leiddi í ljós að bæði úrræðin og skimunin og könnunin voru afar misjafnlega framkvæmd eftir því hvar það var á landinu. Þetta þarf að samræma og finna lausnir sem eru viðunandi og bæta kerfið.