Lyfjagjöf til of feitra barna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:34:28 (1662)

2002-11-20 14:34:28# 128. lþ. 34.5 fundur 223. mál: #A lyfjagjöf til of feitra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SI
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingvarsdóttir):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur offita og ofþyngd orðið mun algengari síðustu áratugi bæði meðal barna og fullorðinna á Íslandi rétt eins og víðast hvar á Vesturlöndum. Ef fram heldur sem horfir verður offita einn umfangsmesti og kostnaðarsamasti heilbrigðisvandi næstu áratuga að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Offita á unga aldri er ekki síst áhyggjuefni því hún segir til um það sem koma skal, þ.e. aukna offitu og offitutengda sjúkdóma síðar á ævinni, svo sem kransæðasjúkdóma, sykursýki, háa blóðfitu og háþrýsting svo fátt eitt sé nefnt, að ógleymdum félagslegum vandamálum og lélegri sjálfsmynd. Þessi mál hafa áður verið rædd við hæstv. heilbrrh. í fyrirspurnatímum á Alþingi. Í máli hans þá varðandi leiðir til að hjálpa vaxandi hópi of þungra og of feitra barna og ungmenna kom fram að fyrsta úrræðið væri á sviði grunnþjónustunnar í heilsugæslunni. Oftast er það með almennum ráðleggingum til foreldra um mataræði. Einnig gæti verið um þau frávik að ræða að vísa þyrfti börnum til sérfræðinga svo sem barnalækna, en vandinn væri margþættur og ekki nema að hluta tengdur heilbrigðiskerfinu. Það er vissulega rétt því hann snýr einnig að almennum lífsháttum, lífsstíl, mataræði og almennri hreyfingu.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh.: Hversu mörg börn eru á lyfjum við fylgikvillum offitu og hvaða úrræði önnur en lyfjagjöf eru tiltæk fyrir þessi börn?

Um 350 einstaklingar hér á landi eru að jafnaði á lyfjum vegna offitu og vil ég gjarnan fá að vita hvort einhverjir þeirra séu börn eða unglingar. Ég tel lyfjagjöf ekki réttu leiðina til að taka á þessu alvarlega vandamáli hjá börnum. Lyfjagjöf við offitu getur m.a. stuðlað að útskilnaði fitu með tilheyrandi aukaverkunum. Önnur úrræði þurfa að vera fyrir hendi fyrir þennan því miður ört vaxandi hóp einstaklinga og hvers konar forvarnir eru afar mikilvægar í baráttunni við þetta vandamál. Orsaka aukinnar offitu meðal barna og unglinga er t.d. að leita í röngu mataræði, óreglu á matmálstímum og minni daglegri hreyfngu. Eins og málum er háttað nú er t.d. aðeins boðið upp á skólamáltíðir í fáum grunnskólum og framhaldsskólum. Góður og hollur matur í skóla hefur heilsufarslegt gildi umfram augljós næringaráhrif og betri líðan. Sá matur sem borinn er fyrir stóran hóp barna getur beinlínis sett mark sitt á holdarfar þjóðarinnar, ekki aðeins í nútíð heldur einnig ef horft er til framtíðar. Þar við bætist að góður og fjölbreyttur matur í skóla hefur fræðslu- og uppeldisgildi þar sem börnin læra af því sem fyrir þau er borið.