Lyfjagjöf til of feitra barna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:40:25 (1664)

2002-11-20 14:40:25# 128. lþ. 34.5 fundur 223. mál: #A lyfjagjöf til of feitra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SI
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:40]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingvarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svörin og fagna því að lyfjagjöf er ekki notuð fyrir börn sem þjást af offitu því ég tel forvarnir, fræðslu, hreyfingu og almennt heilbrigðari lífshætti mun vænlegri til árangurs. En það þarf að taka þetta vandamál mjög alvarlega.

Það var fagnaðarefni þegar nýlega birtist grein í Morgunblaðinu um að óhollustan væri þyngri í pyngju en hollustan. Þetta hefur breyst á undanförnum árum. En mörg börn þurfa að sjá um sig sjálf stóran hluta dags og margt bendir til að heimilismáltíðir skipi ekki þann sess sem áður var. Mataræði er því óreglulegt og því fylgir bæði hætta á ofeldi fyrir þá sem eru mikið fyrir sætindi og mat en jafnframt hugsanlegt vaneldi fyrir önnur börn. Því er mikið í húfi að börn fái gott atlæti í skóla og að skólamaturinn sé saðsamur án þess að ala á offitu.

Í þingsályktun um manneldis- og neyslustefnu frá 1989 segir að nemendur í grunn- og framhaldsskóla skuli eiga kost á hollu fæði í skólum. Hollustan miðast þar við að fæðið sé í samræmi við manneldismarkmið. Eins segir í grunnskólalögum frá 1995 að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma. Þetta tel ég afar brýnt að uppfylla.