Kostnaður af heilsugæslu

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:47:27 (1667)

2002-11-20 14:47:27# 128. lþ. 34.6 fundur 329. mál: #A kostnaður af heilsugæslu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um kostnað af heilsugæslu, einkum um kostnað íbúa á heilsugæslusvæðum þar sem heimilislæknar eru ekki við störf. Eins og hv. Alþingi er kunnugt hefur ríkt það ástand á Suðurnesjum að allir heilsugæslulæknar sögðu samtímis upp störfum og gengu út af vinnustað sínum um síðustu mánaðamót. Ég ætla ekki að rekja hér frekar ástæður þessa máls enda hafa þær verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu daga og þarf ekki að rifja þær upp.

Þegar ljóst var að í þetta ástand stefndi var brugðist við á þann hátt að styrkja bráðamóttöku sjúkrahússins í Keflavík svo öllum neyðartilvikum yrði sinnt. Hefur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mætt þessu álagi eftir bestu getu og ber að þakka það.

Þær kringumstæður geta komið upp og hafa komið upp hér og þar um landið að læknishéruð hafa orðið læknislaus um tíma, t.d. vegna veikinda, mönnunarvanda eða annarra illviðráðanlegra orsaka. Af hálfu stjórnenda stofnana og ráðuneytisins hefur verið lögð mikil vinna í að leysa úr þvílíkum vanda hverju sinni. Sama hefur gerst vegna þessa ástands á Suðurnesjum og ég hef einlæga von um að því linni hið fyrsta. Þegar er kominn læknir til starfa á heilsugæslunni auk þeirrar aðstoðar sem sjúkrahúsið veitir.

Ég hef lagt mig fram um að leysa þetta mál. Ég mætti m.a. á borgarafund á Suðurnesjum nýlega til að upplýsa íbúana þar um stöðu mála og skiptast á skoðunum. Ég vænti þess að þetta mál leysist hið fyrsta. Ég tel því ekki þörf á að breyta reglum um sjúklingagjöld að svo stöddu þó að mér sé ljóst að þetta ástand hefur valdið mörgum íbúum óþægindum.