Heilsugæsla í Kópavogi

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:52:44 (1670)

2002-11-20 14:52:44# 128. lþ. 34.7 fundur 342. mál: #A heilsugæsla í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég er með þrjár spurningar til hæstv. heilbrrh. Í Kópavogi búa í dag yfir 25.000 manns. Því er fyrsta spurning mín eftirfarandi: Hve margir heilsugæslulæknar eru starfandi í Kópavogi? Þar eru einungis tvær heilsugæslustöðvar starfandi, þ.e. miðbæjarstöðin í Fannborg og önnur sem er niðri í Smára.

Önnur spurning er: Hvenær á að taka í notkun nýja heilsugæslustöð í Salahverfi og hve margir læknar eiga að starfa við hana? Í Salahverfinu, Lindum og Sölum, þ.e. austan Reykjanesbrautar, búa nú þegar yfir 5.000 manns, verða á næsta ári yfir 6.000 og þar er enn engin stöð komin. Þar er einungis einkarekin stöð tveggja lækna. Það er vitað að búið er að ganga frá leigusamningum um húsnæði fyrir þessa stöð. Það var gert í vor en nú er kominn nóvember, og jól eru á næsta leiti svo ég spyr hæstv. ráðherra meðan húsnæðið stendur autt án lækna: Hve lengi á það ástand að vara?

Í þriðja lagi spyr ég: Eru einhver áform um að endurnýja á næstunni núverandi heilsugæslustöð í Fannborg? Í miðbæjarstöðinni í Fannborg, sem er elsta stöðin okkar í Kópavogi, er húsnæðið orðið afar dapurt, vægt til orða tekið, og er næsti bær við heilsuspillandi húsnæði. Ég veit að erindi hafa gengið til heilbrrn. og fjmrn. frá verktökum um að kaupa þessa stöð og útvega annars staðar nýrra og betra húsnæði sem er í byggingu. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort menn hafi kíkt eitthvað á það í ráðuneytinu og ef erindi hafa borist þangað bið ég hann að svara þeim þá mögulega. Almennt er uggur í brjósti hjá okkur í Kópavogi varðandi heilsugæslumálin en vonandi kemur hæstv. ráðherra með góð svör hér á eftir.