Heilsugæsla í Kópavogi

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:58:06 (1672)

2002-11-20 14:58:06# 128. lþ. 34.7 fundur 342. mál: #A heilsugæsla í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp hér vegna þess að þetta er auðvitað hluti af miklu stærra máli. Það hefur komið fram á undanförnum vikum að það er flótti úr stétt heilsugæslulækna og heimilislækna vegna réttindamála þeirra sem eru í klúðri og ekki hefur náðst sátt við heilbrrn. Mjög margir hafa horfið frá störfum á undanförnum árum þannig að erfitt verður að manna heilsugæsluna um land allt. Við höfum ekki menntaða heimilislækna, menn velja ekki þá sérgrein vegna þeirrar deilu um réttindamál sem hefur átt sér stað. Ég vil líka, virðulegi forseti, ítreka það að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur nokkrum sinnum tekið þessi mál upp hvað varðar Kópavog og stöðu heilsugæslunnar þar. Það er alveg ljóst að þar blasir við verulegur vandi sem verður þrautin þyngri að leysa fyrir hæstv. ráðherra ef ekki leysist úr deilu milli heimilislækna og hæstv. ráðherra.