Heilsugæsla í Kópavogi

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:59:14 (1673)

2002-11-20 14:59:14# 128. lþ. 34.7 fundur 342. mál: #A heilsugæsla í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans sem mér þóttu sum hver allgóð en önnur kannski lakari.

Hann segir að stöðugildi lækna í Kópavogi séu 11 og að reiknað sé með að hver læknir geti annað 1.500 manns, þ.e. ríflega 16.000 manns samtals. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að við Kópavogsbúar erum nú yfir 25.000 þannig að samkvæmt þessu eru 8--9.000 manns án heilsugæslulæknis í Kópavogi í dag.

Ég fagna yfirlýsingunni varðandi Salahverfið. Mér þykir þó heldur seint að hún komi ekki í notkun fyrr en næsta vor, vorið 2003. Þá erum við búin að hafa húsnæði þarna á leigu í heilt ár. Ef útboðslýsingar varðandi rekstur þessarar stöðvar eru klárar spyr ég: Er ekki hægt að koma þessu strax af stað og taka það í notkun hið fyrsta þó að enn eigi eftir að innrétta húsnæðið, a.m.k. svo að hægt væri að koma einum eða tveimur læknum í gang?

Varðandi síðan miðbæjarstöðina í Fannborg held ég að það sé afar mikilvægt að endurnýja þá stöð. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra um það mál. Ég vænti þess að ákvörðun liggi fljótlega fyrir í því enda geta bæði Kópavogsbær og ríkið nýtt sér það húsnæði sem íbúðir fyrir öryrkja og eldri borgara.

En ég þakka enn og aftur hæstv. ráðherra fyrir svör hans.