Virðisaukaskattur á tæki og búnað til háskóla og rannsóknastofa

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 15:03:43 (1675)

2002-11-20 15:03:43# 128. lþ. 34.8 fundur 272. mál: #A virðisaukaskattur á tæki og búnað til háskóla og rannsóknastofa# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Enginn velkist í vafa um að rannsókna- og vísindastarf er undirstaða velferðar og framfara hverrar þjóðar. Eitt af meginmarkmiðum efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og draga þannig úr sveiflum í efnahagslífi okkar. Helsta leiðin að þessu markmiði er að efla vísinda- og þróunarstarf á sem flestum sviðum. Þess vegna er rökrétt, herra forseti, að efla með tiltækum ráðum vísindasamfélagið, skapa því þann grunn sem nýsköpun fær dafnað í.

Nú skortir ávallt fé til frekari rannsókna. Þrátt fyrir þá staðreynd að meiri fjármunum hafi verið varið til þessara þátta á liðnum árum má sannarlega gera betur ef duga skal.

Svo einkennilega sem það hljómar þá hefur ríkissjóður beinar tekjur af vísinda- og þróunarstarfinu sjálfu. Birtist það á því formi að vísindastofnanir, hvort heldur það eru háskólar eða aðrir rannsóknaraðilar, greiða opinber gjöld af aðföngum sínum. Á ég þar við að þessum aðilum er gert að greiða bæði aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af vörum sem beinlínis eru notaðar í rannsóknarskyni.

Herra forseti. Ég tel þetta ekki vera mjög skynsanlega aðferð í ljósi þess sem hér að framan var sagt. Í raun má segja að skattumhverfið þrengi að þessu leyti að vísinda- og þróunarstarfi í stað þess að vera hvetjandi.

Því beini ég þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort hann telji koma til greina að fella niður álögur hins opinbera af vörum eða búnaði til vísinda- og þróunarstarfs.

Það er sannfæring mín að þó ríkissjóður yrði með því móti af einhverjum tekjum til skemmri tíma þá skilaði það sér margfalt til baka þegar nýsköpunin færi að blómstra og er reyndar í fullu samræmi við þau efnahagsmarkmið sem ég lýsti hér að framan.