Framkvæmd þjóðlendulaganna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 15:12:57 (1680)

2002-11-20 15:12:57# 128. lþ. 34.9 fundur 299. mál: #A framkvæmd þjóðlendulaganna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Í dag er verið að þingfesta í Héraðsdómi Suðurlands a.m.k. sex mál vegna úrskurðar óbyggðanefndar frá því í mars sl. um þjóðlendur í uppsveitum Árnessýslu. Hér er um prófmál að ræða. Ríkisvaldið er að kæra úrskurð óbyggðanefndar fyrir dómstólum og hyggst fara með úrskurð óbyggðanefndar fyrir bæði lægra og æðra dómstig.

Öll framkvæmd þjóðlendulaganna er í sjálfu sér alvarlegt mál. Markmið þjóðlendulaganna var að skilgreina svæði á hálendi Íslands og umhverfis hálendi Íslands sem þætti rétt að væri þjóðlenda, þ.e. í almannaeign, eins konar almenningar og fá það viðurkennt þannig.

Hins vegar hefur framkvæmdin orðið sú að af hálfu ríkisvaldsins hefur verið farið í að lögsækja landeigendur. Þeir hafa verið krafðir um að sanna eignarrétt sinn, landamerki og annan eignarrétt sinn á jörðinni. Þetta vinnulag gengur, að mínu viti, þvert á ímynd þjóðlendulaganna. Mun nær hefði verið að skilgreina fyrst það svæði sem menn hefðu viljað að væri skilgreint sem þjóðlenda og síðan ná samningum um það, eins og stendur líka í 15. gr. laga um þjóðlendur. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Óbyggðanefnd leitar sátta með aðilum nema telja verði að sáttatilraun verði árangurslaus.``

Það á að vera fyrsta skrefið.

Hér hefur hins vegar verið valin sú leið að fara í allan þennan málaflokk með málaferlum. Flestallir bændur á Suður- og Suðausturlandi hafa verið uppteknir af því síðustu missirin með ærnum lögfræðikostnaði að reyna að sanna eignarrétt sinn á landi sem þeir töldu að hefði verið eign þeirra um aldir. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt þó að um það geti verið ágreiningsmál. En þessi aðferð er að mínu viti kolröng.

Engu að síður hefur hæstv. fjmrh. valið þessa leið. Þessi leið átti að fara að kostnaðarlausu fyrir landeigendur og einnig fyrir sveitarfélög að því er lögin gera ráð fyrir.

Nú leyfi ég mér að spyrja hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi:

Hvers vegna er ekki nú þegar hætt kröfugerð af hálfu ríkisins og beðið úrskurðar dómstóla um þetta mál úr því að sú leið er farin?

Hvernig hyggst ríkisvaldið tryggja fjármuni til þess að sveitarfélög og einstaklingar verði fjárhagslega skaðlaus vegna þeirrar vinnu (Forseti hringir.) og málareksturs sem þau hafa þurft og þurfa að kosta til?

Herra forseti. Aðrar spurningar eru svo á þessu blaði sem hæstv. fjmrh. hefur fengið.